Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hóf verkfallið í dag með því að fara á hótel Hilton Nordica og gekk með þeim niður að Gamla Bíói þar sem í allan dag fer fram samstöðufundur með hótelþernum sem eru í verkfalli. 

„Ég fór ásamt samstarfsfólki mínu og við biðum eftir konunum og gengum saman niður Laugaveginn. Það var mjög gaman og skemmtilegt að sjá hvað andinn er góður, eins og öllum hlýtur að vera ljóst sem að hingað eru saman komin,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, sem stödd var í Gamla bíó, á samstöðufundi hótelþerna sem hófu verkfall í dag klukkan tíu.

Sólveig segir að þótt að allir félagsmenn hafi kosið um verkfallið sem hófst í dag þá hafi þátttakan verið meiri meðal þeirra sem verkfallið tók til og taldi að mikill stuðningur væri meðal hótelþerna. Hún segir að hún hafi ekki heyrt af neinum verkfallsbrotum eins og komið er, en að starfsfólk Eflingar sinni verkfallsvörslu á hótelunum í allan dag.

Spurð út í næstu aðgerðir sem nú er verið að kjósa um sagði Sólveig að hún hefði sterka tilfinningu fyrir því að von væri á fleiri verkföllum.

„Ég er ekki alveg viss en ég held að við séum komin með lágmarkshlutfall alls staðar,“ segir

Er þetta það sem er að fara að gerast?

„Ég held það. Það er mín mjög sterka tilfinning, en það auðvitað kemur í ljós þegar við teljum. Þetta er vísbending um bæði stemninguna og það sem er að fara að gerast. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að launin einfaldlega duga ekki og, ég meina, er í alvöru hægt að bjóða fólki upp á það að vinna baki brotnu og ná samt ekki að fáútborgað til að ná endum saman. Ég bara skil ekki fólk sem hefur þá afstöðu að það sé sjálfsagður hlutur á meðan að er augljóst að hér lifið auðstétt bókstaflega í vellystingum. Þetta er á endanum grundvallarspurning um hvernig samfélagið við viljum búa í og ég held að þær konur og þeir menn sem eru hér séu mjög tilbúin til að svara þeirri spurningu,“ segir Sólveig Anna.

Það fólk sem hér er að mótmæla hefur sagt að þetta snúist ekki bara um laun, heldur annað eins og virðingu.

„Já, og aðbúnað. Og algerlega virðingu. Það er málið. Innan úr þessum bransa berast sögur af slæmum aðbúnaði, mikilli vinnuhörku eins og við sáum í síðustu viku var búið að hengja upp lista þar sem var verið að smána fólk fyrir veikindi og svo framvegis. Svo er eitt sem að ég held að Íslendingar geri sér ekki grein fyrir en það er að hér hefur myndast mjög mikil skipting á milli Íslendinga og okkar aðfluttu félaga og það er hrikaleg þróun sem allt fólk með sæmilega eðlilega siðferðiskennd hlýtur að vilja sporna á móti,“ segir Sólveig.

Spurð út í nýjar niðurstöður rannsóknar um áfallasögu kvenna og að konur í flug- og ferðaþjónustu séu í meiri hættu að verða fyrir áreitni og ofbeldi segir Sólveig að það komi ekki á óvart.

„Síðan að við fórum að tala um þessa hluti. Konur í þjónustustörfum eru náttúrulega sérstaklega viðkvæmar fyrir áreiti. Ég bjó í Bandaríkjunum sem láglaunakona og vann í kjörbúð. Ég hef aldrei orðið fyrir eins ótrúlegri brútal kynferðislegri áreitni og frá viðskiptavinunum það. Það er staðreyndin. Þegar það er eitthvað þögult samþykki í samfélaginu að láglaunakonan sé svo lítils virði. Ef það má ekki borga henni laun sem eru nóg til að komast af þá eru það mjög skýr skilaboð um að hún sé á endanum mjög lítils virði og af hverju ekki bara að koma fram við hana eins og þeim sýnist,“ segir Sólveig Anna að lokum.