Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur ákveðið að lækka laun sín um þrjú hundruð þúsund krónur. Sólveig tók við embætti formanns stéttarfélagsins í mars og segist ekki hafa getað með góðri samvisku þegið svona himinhá laun.

Launin trufluðu frá byrjun

„Ég er búin að prófa að lifa algjörlega á lægstu mögulegu laununum og svo með þessi laun sem voru mjög rausnarleg. Ég get sagt í fullri alvöru að það er engin manneskja sem að þarf svona himanhá laun,“ segir Sólveig í samtali við Fréttablaðið. 

„Ég kom þarna inn sem tveggja vinnu, láglauna kona. Ég erfði svo bara þennan launastrúktúr hjá forvera mínum. Svo líða bara þessir mánuðir hratt og þetta truflaði mig einhvern vegin alltaf og svo bara kom að þeirri stund að ég ákvað að vera ekkert að velta meira fyrir mér og tók þessa ákvörðun,“ segir Sólveig.

Þrjú hundruð þúsundin táknræn 

Sem fyrr segir ákvað Sólveig að lækka laun sín um 300 þúsund krónur og segir hún töluna að vissu leyti táknræna. „Þetta eru náttúrulega þessi lágmarkslaun sem nú er leyfilegt að greiða fólki.“

Laun Sólveigar voru fyrir lækkunina rúm 1.1 milljón króna á mánuði og lækka því niður í um 800 þúsund krónur fyrir skatt. „Ég fór inn á launareiknivél hjá VR og mér reiknast það til að ég muni fá þá útborgað, svona láglaunamanneskja eins og ég, hugsum alltaf þannig, þá fæ ég útborgað einhvern 570 þúsund krónur útborgað, sem ég tel vel hægt að lifa á.“

Getur ekki leitt verkafólk með góðri samvisku á svimandi launum

Þá kveðst Sólveig ekki geta með góðri samvisku, leitt réttindabaráttu verka- og láglaunafólki án þess að deila kjörum með þeim á einhvern máta. 

„Ekki það að ég er samt, þrátt fyrir þessa lækkun með nokkuð góð laun,“ bætir hún við.   

„Ef það ríkti eitthvað efnahagslegt réttlæti í þessu samfélagi þá væri það ekki þannig að hér væri sumu fólki gert að lifa á tekjum sem allir ættu að viðurkenna að ekki sé hægt að lifa á, á meðan hér fer fólk sem er á launum sem gera ekkert nema hvetja til lúxus lifnaðar.

Mér finnst að við sem samfélag eigum að fara að hugsa þannig að hversu mikinn launamun eigum við að samþykkja í þessu samfélagi,“ segir hún að lokum.