Sól­veig Anna Jóns­dóttir, sem sagði af sér sem for­maður Eflingar um helgina, gat ekki annað en hlegið „agnar­smáum hlátri“ þegar Guð­mundur Baldurs­son, stjórnar­maður í Eflingu kom í Kast­ljós í gær­kvöldi.

Sól­veig segir frá þessu í færslu á Face­book-síðu sinni.

„Í Kast­ljósi í gær­kvöld krafðist Guð­mundur Baldurs­son þess að Agnieszka Ewa Zi­ól­kowska, vara­for­maður Eflingar, segði af sér líkt og ég hef gert. Mér var vissu­lega ekki hlátur í hug en ég gat þó ekki annað en hlegið agnar­smáum hlátri þegar Guð­mundur lét þessi orð falla,“ segir hún.

Sól­veig segist hafa hugsað um „af­reka­lista“ Guð­mundar í hans störfum fyrir fé­lagið og fólkið sem til­heyrir því og svo hvað Agnieszka hefur gert. „Þess­vegna hló ég í ör­skamma stund,“ segir hún og bætir við að fá­rán­leiki þess að Guð­mundur skuli krefjast þess að Agnieszka láti sig hverfa sé yfir­gengi­legur. „En auð­vitað fyrst og síðast svo ó­bæri­lega ó­geðs­legur.“

Sól­veig bætir við að Agnieszka hafi verið valin af fé­lögum sínum til að gegna stöðu vara­for­manns og það hafi hún gert með sóma.

„Áður var hún trúnaðar­maður árum saman og barðist gegn launa­þjófnaði og ó­boð­legum að­stæðum, svo sem engri salernis­að­stöðu. Hún er fyrsta konan af pólskum upp­runa sem gegnir svo mikil­vægu hlut­verki í ís­lenskri verka­lýðs­hreyfingu. Hún er fyrsti raun­veru­legi full­trúi að­flutts verka­fólks í verka­lýðs-bar­áttunni. Hún þekkir allt það sví­virði­lega rugl sem við­gengst gagn­vart að­fluttu verka­fólki á eigin skinni. Allt. Hún hefur, á­samt mér og þeim í stjórn sem raun­veru­lega hafa viljað bæta hag alls vinnu­aflsins, ekki bara hag þeirra sem líta út og tala eins og þeir sjálfir, leitt stór­kost­lega um­bóta­vinnu innan fé­lagsins þegar kemur að því að tryggja að okkar að­fluttu fé­lagar eigi rétt á ná­kvæm­lega sömu þjónustu og þau okkar sem fædd eru hér.“

Sól­veig bendir loks á að um það bil helmingur fé­lags­fólks Eflingar sé að­flutt fólk.

„Í fyrsta skipti er í á­byrgðar­hlut­verki manneskja sem til­heyrir þeim hópi, manneskja sem berst fyrir þennan hóp af öllu hjarta, alla leið. Og svo dirfist ein­hver maður að segja henni að láta sig hverfa. Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín en ég veit af mikilli reynslu að það kann ekki.“