Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér sem formaður Eflingar um helgina, gat ekki annað en hlegið „agnarsmáum hlátri“ þegar Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu kom í Kastljós í gærkvöldi.
Sólveig segir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Í Kastljósi í gærkvöld krafðist Guðmundur Baldursson þess að Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, segði af sér líkt og ég hef gert. Mér var vissulega ekki hlátur í hug en ég gat þó ekki annað en hlegið agnarsmáum hlátri þegar Guðmundur lét þessi orð falla,“ segir hún.
Sólveig segist hafa hugsað um „afrekalista“ Guðmundar í hans störfum fyrir félagið og fólkið sem tilheyrir því og svo hvað Agnieszka hefur gert. „Þessvegna hló ég í örskamma stund,“ segir hún og bætir við að fáránleiki þess að Guðmundur skuli krefjast þess að Agnieszka láti sig hverfa sé yfirgengilegur. „En auðvitað fyrst og síðast svo óbærilega ógeðslegur.“
Sólveig bætir við að Agnieszka hafi verið valin af félögum sínum til að gegna stöðu varaformanns og það hafi hún gert með sóma.
„Áður var hún trúnaðarmaður árum saman og barðist gegn launaþjófnaði og óboðlegum aðstæðum, svo sem engri salernisaðstöðu. Hún er fyrsta konan af pólskum uppruna sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í íslenskri verkalýðshreyfingu. Hún er fyrsti raunverulegi fulltrúi aðflutts verkafólks í verkalýðs-baráttunni. Hún þekkir allt það svívirðilega rugl sem viðgengst gagnvart aðfluttu verkafólki á eigin skinni. Allt. Hún hefur, ásamt mér og þeim í stjórn sem raunverulega hafa viljað bæta hag alls vinnuaflsins, ekki bara hag þeirra sem líta út og tala eins og þeir sjálfir, leitt stórkostlega umbótavinnu innan félagsins þegar kemur að því að tryggja að okkar aðfluttu félagar eigi rétt á nákvæmlega sömu þjónustu og þau okkar sem fædd eru hér.“
Sólveig bendir loks á að um það bil helmingur félagsfólks Eflingar sé aðflutt fólk.
„Í fyrsta skipti er í ábyrgðarhlutverki manneskja sem tilheyrir þeim hópi, manneskja sem berst fyrir þennan hóp af öllu hjarta, alla leið. Og svo dirfist einhver maður að segja henni að láta sig hverfa. Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín en ég veit af mikilli reynslu að það kann ekki.“