Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var með 1.040.064 krónur í mánaðarlaun á síðasta ári samkvæmt álagningarskrá Ríkisskattstjóra sem opnuð var í morgun.

Athygli vakti þegar Sólveig Anna tók við formennsku Eflingar árið 2018 lækkaði hún sín eigin laun um þrjú hundruð þúsund krónur.

Fyrir lækkunina voru laun Sólveigar Önnu rúm 1,1 milljón króna á mánuði en fóru niður í 800 þúsund krónur.

Miðað við þróun launavísitölu síðustu ára má gera ráð fyrir að laun Sólveigar Önnu hafi hækkað úr 800 þúsundum króna í um það bil 947 þúsund krónur samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar.

Sólveig Anna hefur verið talsvert í fjölmiðlum undanfarið en í nóvember í fyrra sagði hún af sér formennsku Eflingar.

Í yfirlýsingu sem Sólveig Anna gaf út á Facebook síðu sinni rakti hún ástæður afsagnar sinnar og sagði starfsfólk Eflingar hafa hrakið hana frá störfum.

Hún var þó ekki lengi frá störfum því hún var kjörin formaður á ný um miðjan febrúar síðastliðinn.