Sólveig Anna, formaður Eflingar, hvetur meðlimi stéttarfélagsins til að taka þátt í stórri könnun sem opnað var fyrir í dag.

„Þessi könnun er mikilvægt skref í undirbúningi okkar á komandi baráttu-vetri,“ segir Sólveig Anna á Facebook síðu sinni en Efling vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi fyrir komandi kjaraviðræður. „Það er algjört lykilatriði að við mætum með eins góða þekkingu á aðstæðum og viðhorfum ykkar og hægt er að afla“ segir Sólveig.

Stærri en nokkru sinni fyrr

Sólveig segir að Efling hafi vissulega áður gert kannanir líkar þessari en aldrei áður hafi allir meðlimir stéttarfélagsins getað tekið þátt. Yfirleitt hafi verið um lítið úrtak að ræða. Einnig hafi könnun sem þessi aldrei verið gefin út á eins mörgum tungumálum en hún er gefin út á íslensku, ensku, pólsku, litháísku, spænsku, lettnesku, rúmensku, tælensku, filipino og víetnömsku

Könnunin er unnin í samstarfi við Gallup og er um nafnlausa könnun að ræða. 35 spurningar eru á lista og gert ráð fyrir að hægt sé að klára hana á innan við 15 mínútum.