Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar og fyrrverandi varaforseti ASÍ vandar arftaka sínum Halldóru Sveinsdóttur ekki kveðjurnar.

Halldóra, eða Dóra Sigga eins og hún er gjarnan kölluð, er formaður Bárunnar á Selfossi og verður í dag skipuð varaforseti ASÍ. Þá mætti segja að Sólveig Anna hafi skúbbað ASÍ sem hefur enn ekki tilkynnt opinberlega um skipun varaforseta.

„Hún tilheyrir þeim hópi verkalýðsleiðtoga sem aldrei lætur í sér heyra opinberlega en er þeim mun duglegri að véla bakvið tjöldin.“

Gylfi Arn­björns­son, fyrrverandi for­seti ASÍ. Sólveig Anna segir Dóru Siggu dyggan liðsman gömlu hreyfingarinnar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Manneskja bakherbergisins

Sólveig Anna segir Dóru Siggu einn dyggasta liðsmann gömlu verkalýðshreyfingarinnar sem leidd var af Gylfa Arnbjörnssyni sem vilji endurvekja SALEK-samkomulagið svokallaða í formi grænbókar.

SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga en Sólveig Anna segir verkefnið snúast um að taka stjórn kjaramála úr höndum launafólks og setja í hendur nefnda.

Dóra Sigga er formaður Bárunnar.

Að hennar mati hefur SALEK- verkefnið í raun aldrei hætt, þvert á móti vaxið og dafnað innan ASÍ og ráðuneytanna „í höndum sérfræðinga og starfsfólks sem starfar án nokkurs lýðræðislegs umboðs frá félagsfólki í verkalýðshreyfingunni.“

Dóra Sigga er að sögn Sólveigar „manneskja bakherbergisins“ sem makki að andstæðingum sínum fjarstöddum.

„Það kemur reyndar engum á óvart sem þekkir til vinnubragða Halldóra, en hún tilheyrir þeim hópi verkalýðsleiðtoga sem aldrei lætur í sér heyra opinberlega en er þeim mun duglegri að véla bakvið tjöldin,“ skrifar Sólveig Anna.

Segir Halldóru hafa haldið leynifund um grænbókina

Stjórnvöld og heildarsamtök á vinnumarkaði vinna að gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.  Fjallað hefur verið um markmið og verklag við gerð grænbókar um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál á samráðsfundum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og á vettvangi þjóðhagsráðs.

Sólveig Anna segir þessa grænbók vera tilraun til að endurvekja SALEK-samkomulagið. Efling hafi náð að stöðva verkefnið í bili sem hafi vakið mikla úlfúð í verkalýðshreyfingunni, sérstaklega frá „varðmönnum gömlu hreyfingarinnar“ sem hafi haldið sérstakan leynifund um áframhaldandi stuðning við grænbókina án þess að bjóða fulltrúum Eflingar.

„Þeir voru mjög reiðir yfir því að þessi vinna hafi ekki fengið að rúlla áfram. Fremst í flokki þessara varðmanna var Halldóra Sveinsdóttir. Hún gekk svo langt að efna til sérstaks leynifundar sem haldinn var í febrúar þar sem 15 formönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins var boðið, en ekki mér (ég var á þessum tíma varaformaður Starfsgreinasambandsins),“ skrifar Sólveig Anna.