Sólveig Anna Jónsdóttir, oddviti B-lista Eflingar, hafnar orðum Ólafar Helgu Adolfsdóttur, oddvita A-lista Eflingar, um að hún sé „endalaust á háa C-inu“.

Ólöf Helga sagði í viðtali við Mbl.is í dag að henni þætti óþarfi að vera reið en baráttugleði sín væri ekki minni fyrir vikið.

„Ég er al­gjör­lega til­bú­in í bar­áttu eins og ég gerði með Icelanda­ir og ég er ennþá í þeirri bar­áttu, en ég tel allt í lagi að byrja að tala. Það er eng­in ástæða til að stökkva af stað í stríðsöskrin áður en ein­hver er bú­inn að segja nei við mann. Ég er ekk­ert sér­stak­lega hrif­in af því að æsa mig fyrr en það er ástæða til þess. Mér finnst erfitt að taka mark á fólki þegar það enda­laust uppi á háa C-inu. Þá veit maður ekki hvenær áhersl­an er og hvenær ekki,“ sagði hún.

Ólöf Helga Adolfsdóttir leiðir A-lista til stjórnar Eflingar.
Fréttablaðið/Ernir

Hafi hundsað tölvupósta

Sólveig Anna hafnar þessu í færslu á Facebook og segir þetta ósanna fullyrðingu.

„Ég hef aldrei átt annað en góð og vingjarnleg samskipti við Ólöfu og ég held að hún hafi aldrei séð mig á “háa C-inu”. “Árásarhamur” minn nýttist henni sjálfri ágætlega þegar ég var meira en tilbúin til að setja styrk Eflingar í baráttu fyrir réttindum hennar, skipuleggja aðgerðir og mæta til að tala hennar máli á stuðningsfundum,“ segir Sólveig Anna. Hún segir þetta sleggjudóma.

„Eftir að ég hafði sagt af mér fomennsku ákvað Ólöf að hafa við mig engin samskipti, og hún og formaður hunsuðu m.a. frá mér tölvupósta þar sem ég óskaði eftir því að fá að koma á fund trúnaðarráðs félagsins til að segja mína hlið. Hversvegna þær tóku þessa ákvörðun veit ég ekki. Þær hljóta að hafa sínar ástæður.“