Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir ríkissáttasemjara og segir að Efling hafi verið svipt samningsrétti. Stéttaandúð og neikvætt viðhorf til láglaunakvenna ráði för.

Ef ekki semst gæti styst í verkfall um 21 þúsund félagsmanna Eflingar. Um 80 prósent félagsfólks hafa í nýlegri kjarakönnun sem byggir á 4.500 svörum lýst sig tilbúin í verkfall að sögn Sólveigar Önnu. 65 prósent Eflingarkvenna, langstærsti hópur félagsmanna, lifi við viðvarandi fjárhagsáhyggjur.

„Ef til verkfalls kemur er það ekki vegna þess að mig langi í verkföll eða að fjölskipuð samninganefnd sé gengin af göflunum heldur vegna þess að fólk þarf á því að halda að við náum árangri,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir að Efling hafi sýnt mikinn samningsvilja en Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hafi valdið vonbrigðum.

„Ég hef bundið vonir við að ríkissáttasemjari átti sig á að það gengur ekki að Efling sé svipt sjálfstæðum samningsrétti,“ segir Sólveig Anna. „En því miður áttar hann sig ekki á því. Hann áttar sig ekki heldur á að það er hans hlutverk að okkar viðsemjendur uppfylli sínar skyldur og mæti með eitthvað að samningaborðinu.“

Að sögn formannsins er við að eiga stéttaandúð hinna velmegandi gagnvart vinnuafli sem haldi öllu gangandi.

„Við upplifum mikla stéttaandúð, mikla andúð á láglaunakonum og ekki síst aðfluttum láglaunakonum.“

Þá svíður Sólveigu Önnu einnig að Starfsgreinasambandið standi ekki með Eflingu.

„Viðsemjendur sjá okkur ekki fyrir sér sem ómissandi fólk sem heldur allri framleiðslunni gangandi heldur sem ruslaralýð. Því miður hafa félagar okkur hjá Starfsgreinasambandinu lagst á árar með þeim.“

Aðalsteinn Leifsson vill ekki tjá sig um málið.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Fréttablaðið/Anton Brink