Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrum formaður Eflingar, gagnrýnir Friðrik Jónsson, formann BHM, vegna orða hans um að nauðsynlegt sé að meta menntun til launa þó það kalli á ójöfnuð í samfélaginu.

Í Facebook-færslu biður Sólveig Anna, Friðrik og aðra sem eru sömu skoðunar, að staldra við og hugsa um það hvers vegna í ósköpunum það sé eftirsóknarvert að refsa ómenntuðu fólki og börnum þeirra með tilveru markaðri af efnahagslegum skorti.

Jöfnuður betri en ójöfnuður

„Ef að við trúum því að samfélag jöfnuðar sé betra en samfélag ójöfnuðar, ef að við trúum því að allt fólk sé jafn rétthátt, ef við trúum því að öll börn séu mikilvæg, afhverju ættum við þá að samþykkja sem náttúrulögmál að þau sem gengið hafa menntaveginn séu í eðli sínu endalaust meira virði en þau sem gerðu það ekki.

Og að hver dagur hinna ómenntuðu eigi að fela í sér refsingu fyrir “glæpinn” að vera ekki með háskólamenntun,“ segir Sólveig Anna meðal annars í færslu sinni og bætir við að það geti oft verið gott, gaman og gagnlegt fyrir fólk að feta menntaveginn.

„En samfélagslegt samþykki á gagnsemi menntunnar á ekki að leiða til samþykkis á grimmri efnahagslegri stéttskiptingu, þar sem að sumar fjölskyldur eru dæmdar til að lifa við viðvarandi fjárhagsáhyggjur sem hafa svo ömurleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu.

Ef að við tryggjum ómenntuðu fólki og afkvæmum þeirra góða og mannsæmandi afkomu erum við ekki bara að bæta líf þeirra heldur gerum við allt samfélagið okkar betra,“ segir Sólveig Anna.

Ómissandi ómenntaðar konur

Að sögn Sólveigar Önnu er Ísland fullt af ómenntuðum konum sem eru algjörlega ómissandi. „Vinna þeirra heldur til dæmis uppi umönnunarkerfunum okkar. Hún knýr áfram hjól atvinnulífsins. Án vinnu þeirra væri hér ekki hægt að reka það sem samfélag sem við þekkjum.“

Að lokum segir Sólveig Anna að Íslendingar eigi að sameinast um að minnka áhyggjur þeirra. Gera það að forgangsverkefni að gefa þeim og öðru ómenntuðu fólki líf sem snýst ekki um að þrauka frá einni útborgun til þeirrar næstu.