„Þetta er til skammar. Ég fordæmi þessa hegðun og þessa forgangsröðun íslenskra stjórnvalda,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar um handtöku fjögurra karlmanna á byggingasvæði í Garðabæ í gær.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var þar við vinnustaðaeftirlit og í tilkynningu frá lögreglu segir að grunur hafi leikið á um að mennirnir, sem eru erlendir ríkisborgarar, hafi fengið skráningu á grundvelli falsaðra vegabréfa og því ekki tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Í tilkynningu lögreglu kemur fram að við eftirlitið hafi verið notuð ný bifreið lögreglunnar, sem ætluð er til landamæraeftirlits á höfuðborgarsvæðinu. Bifreiðin er búin sérstökum tækjum til slíks eftirlits, meðal annars tækjum til að skoða og sannreyna skilríki.

Formaður Eflingar er ekki sátt við þessa framgöngu yfirvalda.

Ég fordæmi þessa hegðun og þessa forgangsröðun íslenskra stjórnvalda

„Hér er verið að eltast við og hrella jaðarsettasta hóp samfélagsins, það fólk sem á bókstaflega í engin hús að vernda. Þetta er fólkið sem þarf oft að þola ofbeldi og þjófnað á launum og treystir sér ekki að leita til stéttarfélaga eða lögreglu þegar slíkt gerist, vegna þess að það veit að það á ekki von á góðu,“ segir Sólveig Anna í færslu á Facebook í kvöld.

Eigum ekki að glæpavæða neyð fólks

Í færslunni segir Sólveig að þótt Íslendingar hafi ekki persónulega reynslu af flótta eða hrakningum í leit að skjóli hljótum við að hafa næga samhyggð til að skilja af hverju fólk grípur til ýmissa ráða til að hafa í sig og á.

„Við eigum að sjá sóma okkar í því að glæpavæða ekki neyð annars fólks. Við eigum að sjá sóma okkar í því að gefa því fólki sem hingað er komið sömu möguleika á því að fá vinnu og aðrir hafa. Staðreyndin er sú að ef að við gerum það ekki leiðir það til áframhaldandi undirboða og áframhaldandi brota. Það grefur undan aðstæðum á vinnumarkaði, gerir þær verri og leyfir fólki með skerta siðferðiskennd að komast upp að notfæra sér neyð annara til að verða sér út um vinnuafl á afslætti sem kvartar ekki yfir illri meðferð,“ segir Sólveig og beinir svo spjótum sínum að Samtökum atvinnulífsins.

Væri nær að uppræta launaþjófnað

„Á meðan yfirvöld setja fjármuni og mannafla í að eltast við það fólk á Íslandi sem á sér hvergi skjól eða málsvara hafa Samtök atvinnulífsins staðið af algjörri og forhertri þvermóðsku gegn því að hægt væri að innleiða sektarákvæði vegna kjarasamningsbrota og stjórnvöld hafa leyft þeim að komast upp með það. Refsingar fyrir launaþjófnað var eitt af þeim málum sem Efling lagði gríðarlega mikla áherslu á í kjarasamningsviðræðunum 2018-19 og stjórnvöld settu loks í „pakkann“ sinn margumrædda,“ segir Sólveig og lætur þess getið að hundruðum milljóna sé stolið af vinnandi fólki á hverju ári. Ef upp um þjófnaðinn komist gerist hins vegar ekkert annað en að atvinnurekandinn þurfi að skila þýfinu og sé svo laus allra mála.

„Og staðreyndin er sú að stjórnvöld hafa ekkert gert til að axla ábyrgð á því að uppræta þessa raunverulegu glæpastarfsemi og einfaldlega sjá að það er hlutverk þeirra og skylda að „auka heimildir til refsinga“, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Þarna er samt um að ræða kerfisbundið og grafalvarlegt vandamál! En þegar kemur að því að elta, hrella og hræða varnarlaust og allslaust fólk; þá er ekki eftir neinu að bíða,“ segir Sólveig og fordæmir þessa hegðun og forgangsröðun íslenskra stjórnvalda.