Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Landsréttar varðandi kyrrsetu eigna fyrirtækisins HD verks af hálfu Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu.
Málið varðar kröfu fólks sem slapp úr mannskæðum eldsvoða á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu á síðasta ári, sem og kröfum aðstandenda þeirra sem fórust.
Sólveig Anna Jónsdóttir fyrrum formaður Eflingar segist á Facebook-síðu sinni fagna úrskurðinum.
„Ég vona af öllu hjarta að þau sem misstu aleiguna í eldinum og aðstandendur þeirra sem létust vinni málið gegn HD verki,“ segir Sólveig og lýsir HD verki sem: „ógeðslegu fyrirtæki sem hagnaðist á því að leigja verkafólki dauðagildru sem íbúðarhúsnæði.“