Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist aldrei hafa öskrað á Drífu Snædal fráfarandi formann ASÍ. Þar vísar hún til ummæla sem Drífa lét fjalla í viðtali í kjölfar tilkynningar um afsögn sína.

„Það hefur verið þessi stemming að níða fólk niður. Öskra, rjúka út af fundum, vera með yfirlýsingar í fjölmiðlum gagnvart einstaka fólki, persónuárásir. Þetta er bara eitthvað sem er óbærilegt að vinna undir.“ sagði Drífa í viðtali við RÚV í dag.

Sólveig virðist taka þessi ummæli til sín, en í tilkynningu Drífu í morgun vísaði hún til framferðis Eflingar og formanns VR í sinn garð til að útskýra afsögn sína.

„Ég hef aldrei öskrað á hana. En ég hef vissulega hækkað róminn þegar tekist hefur verið á um stór-pólitísk mál.“ skrifar Sólveig Anna á Facebook-síðu sína í dag.

Sólveig gefur einnig lítið fyrir ásakanir um að hún hafi rokið af fundum en minnist á eitt slíkt skipti þar sem hún sakar Drífu um að hafa ekki gefið sér færi á svara fyrir sig.

„Ég hef örsjaldan farið af fundum. Síðast þegar ég gekk af fundi var það vegna þess að varaformaður Eflingar hélt tölu á miðstjórnarfundi um það að ég væri að ljúga því að mér hefði verið hótað ofbeldi og eignaspjöllum. Þegar hún hafði lokið máli sínu óskaði ég eftir því að gerð væri athugasemd við framferði varaformanns. Það neitaði Drífa Snædal að gera og gerði mér það algjörlega ljóst að hún var í raun á sama máli og Agnieszka Ewa. Þá ákvað ég að fara af fundinum og tel ég að fleiri hefðu gert það sama í mínum sporum.“

Að lokum segist Sólveig að átök sín við Drífu hafi varðað stór pólitísk mál, en ekki verið persónuleg átök.

Þá gefur Sólveig til kynna að vegferð Drífu hafi snúist um „stéttasamvinnu og skýrslu-ritanir, ráðstefnur og vegtyllur“, en segir sína eigin verkferð snúast um að berjast fyrir réttlæti og virðingu í garð verka og láglaunafólk.