Sólveig Anna Jónsdóttir hefur boðið fram Baráttulistann sem mun sækjast eftir því að stýra Eflingu. Samkvæmt frétt Kjarnans stefnir listinn á að stórauka áhrif Eflingar innan verkalýðshreyfingarinnar, taka upp sjóðsfélagslýðræði í lífeyrissjóðum og standa alfarið gegn innleiðingu á SALEK.
SALEK stendur fyrir „samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamningar“. Listinn stefnir einnig á að koma umbótum á starfsmannamál innan félagsins.
„Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að umbylta félaginu og gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu láglaunafólks. Breytingar í félaginu okkar á síðustu árum hafa gefið okkur von og sannfæringu um að þetta sé hægt. Skipulögð og einbeitt barátta skilar árangri," segir á vefsíðu framboðsins en þar má lesa sér til um stefnur listans.
Sólveig Anna var fyrst kjörinn formaður Eflingar í febrúar 2018 en sagði af sér formennsku í fyrrahaust eftir að kvörtunarbréf til stjórnar félagsins, undirritað af trúnaðarmönnum félagsins, lak í fjölmiðla.
Sólveig gaf starfsfólki val um að senda út yfirlýsingu sem myndi bera til baka ásakanir á hendur hennar og annarra stjórnarmeðlima eða hún myndi segja upp störfum. Yfirlýsingin sem starfsfólk sendi frá sér í kjölfarið segir Sólveig að hafi verið vantraustsyfirlýsing og hún sagði því upp.
Prófkjör hefst 9. febrúar næstkomandi og stendur yfir til 15. febrúar. Á B-listanum, Baráttulistanum, eru einnig Daníel Örn Arnarsson, Innocentia F. Friðgeirsson, Ísak Jónsson, Kolbrún Valvesdóttir, Michael Bragi Whalley, Olga Leonsdóttir og Sæþór Benjamín Randalsson.
Fjögur þeirra sem sitja í listanum eru núna stjórnarmenn hjá Eflingu og öll hafa reynslu af trúnaðarstörfum fyrir félagið. Daníel er ritari stjórnar.
Ólöf Helga Adolfsdóttir leiðir A-listann sem samþykktur var af trúnaðarráði Eflingar. Hún hefur setið sem varaformaður undir Agniezku Ewu Ziólkowska síðan Sólveig sagði af sér. Tveir núverandi stjórnarmenn eru á þeim lista.
Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, hefur einnig boðað að hann ætli sér að leggja fram eigin lista en hann hefur ekki enn verið kynntur.