Meðalsölutími á íbúðum sem seldar voru á höfuðborgarsvæðinu í apríl var 34,7 dagar og hefur ekki mælst jafn stuttur frá upphafi mælinga.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en sérfræðingar hennar eru með puttann á púlsi fasteignamarkaðarins.

Þeir segja jafnframt að heimilin í landinu búi að góðu veðrými. Á einum áratug, frá 2010 til 2020, hafi skuldahlutfallið að jafnaði helmingast, farið úr 45,7 prósentum af verðmæti íbúða niður í 28,2 prósent.

Heldur hafi dregið úr viðskiptum á fasteignamarkaði vegna eftirspurnarþrýstings, en þrátt fyrir það hafi met verið slegið í apríl, annan mánuðinn í röð, þegar 54 prósent íbúða á landinu hafi selst yfir ásettu verði.

Nokkur munur sjáist þar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, en 65 prósent íbúða í fjölbýli á fyrrnefnda svæðinu hafi selst yfir ásettu verði og 53 prósent í sérbýli. Úti á landi hafi 45 prósent íbúða í fjölbýli selst á yfirverði, en 32 prósent í sérbýli.

Í samantekt stofnunarinnar kemur líka fram að fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um 23,6 prósent á milli ára og „hefur hækkunin ekki verið meiri að minnsta kosti síðan fyrir hrun,“ eins og þar segir orðrétt.