Eiganda verslunarinnar Extrakaup á Hverfisgötu hefur verið bannað að selja ákveðin leikföng og verið gert að afturkalla þau frá viðskiptavinum.

Neytendastofu barst ábending um að leikföng væru til sölu í versluninni Extrakaup við Hverfisgötu 96 í miðbænum sem uppfylltu ekki kröfur laga um um opinbera markaðsgæslu, öryggi leikfang og markaðssetningu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Fulltrúi frá Neytendastofu fór þann 17. nóvember 2020 í verslunina og aflaði sýnishorna af leikföngum, meðal annars var skoðað eintak af „Double Decker“ tréleikfangi, „SUPER HERO“ hömrum, með mynd af The Avengers, „SUPER HERO“ leikfangakalli sem lítur út eins og Black Panther ofurhetja og „LAUNCHING MISSILE“ leikfangaköllum. Við skoðun var ekki hægt að sjá að leikföngin væru CE-merkt.

Leikfangið sem lítur út eins og Black Panther var meðal annars ekki talið öruggt þar sem hægt var að nálgast rafhlöður í dótinu án þess að nota verkfæri.
Mynd: Neytendastofa

Neytendastofa sendi í kjölfarið bréf til eiganda verslunarinnar um tímabundið sölubann. Var óskað eftir gögnum sem gætu sýnt fram á öryggi varanna, s.s. öryggismat, EB gerðarprófunarvottorð, samræmisyfirlýsingu og prófunarskýrslu. Engin gögn eða andsvör hafa borist frá Grísnum ehf sem rekur Extrakaup.

Í ljósi þess að ekki hafi verið sýnt fram á að leikföngin uppfylltu ofangreind skilyrði varðandi framleiðslu og markaðssetningu leikfanga taldi Neytendastofa þau ekki örugg í skilningi laga.

Neytendastofa fór fram á að Grísinn ehf. afturkalli leikföngin frá neytendum „þar sem að leikföngin geta verið hættuleg börnum.“