Mikil og hörð gagnrýni kemur fram á hendur Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðuneytinu í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka. Þrátt fyrir yfirlýst markmið um að há­marka söluverð hafi söluaðferðin sem valin var ekki verið til þess fallin að hámarka verð.

Strax í byrjun skýrslunnar er skýrt tekið fram að Ríkisendurskoðun taki ekki afstöðu til ýmissa þátta málsins, meðal annars þess hvort tilboðsfyrirkomulagið hafi verið besta aðferðin til að selja hlutinn.

Enn fremur er ekki tekin afstaða til þess í skýrslunni hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa eða söluaðila hafi verið í samræmi við lög og reglur, þar með talið hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum. Síðastnefnda atriðið sæti eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Fram kemur að viðskipti með hlutabréf bankans þornuðu nær algerlega upp í kauphöll 17. mars, daginn sem aðalfundur fór fram, fimm dögum fyrir útboð og degi áður en formleg ákvörðun var tekin um að úr sölunni yrði. Bendir það til þess að innherjaupplýsingar hafi lekið út á markaðinn. Væntanlega er það eitt þeirra atriða sem Fjármálaeftirlitið hefur til rannsóknar.

Litlar upplýsingar fengust frá Seðlabankanum um rannsókn Fjármálaeftirlitsins á Íslandsbankasölunni aðrar en þær að reynt sé að flýta henni eins og kostur er.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefði mátt vera ljóst að starfsmenn Bankasýslu ríkisins bjuggu ekki yfir neinni reynslu af sölu ríkiseigna með tilboðsfyrirkomulagi og þeir hafi haft takmarkað svigrúm til almennrar upplýsingagjafar. Úr skýrslunni má lesa að starfsmenn Bankasýslunnar hafi ekki þekkt grundvallaratriði sem fólgin eru í söluaðferðinni.

Gagnrýnt er að ekki hafi verið gerðar tilhlýðilegar kröfur til umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila og axarsköft við framkvæmdina hafi leitt til þess að þegar ákvörðun var tekin um leiðbeinandi verð höfðu hvorki umsjónaraðilar útboðsins, Bankasýslan né fjármálaráðherra, sem tók endanlega ákvörðun, yfirsýn yfir raunverulega eftirspurn eftir hlutafé í bankanum.

Gagnrýnt er að haldið var utan um lista yfir tilboðsgjafa í Microsoft Excel-skjali þar sem ruglingur á íslenskri og erlendri kommu­setningu, auk þess sem talnagögn voru skilgreind sem texti þannig að töflureiknirinn nam þau ekki sem tölur, varð til þess að eftirspurn var vanmetin um tugi milljarða króna.

Ríkisendurskoðun segir að umframeftirspurn hafi orðið á verði sem var hærra en það leiðbeinandi lokaverð sem Bankasýslan og fjármálaráðherra ákváðu. „Því verður ekki annað séð en að verðmyndun í ferlinu hafi gefið tilefni til að ákvarða hærra leiðbeinandi lokaverð en gert var. Í þessu ljósi kann vanmat á eftirspurn, vegna takmarkaðrar greiningar á tilboðabókinni, að hafa haft áhrif á niðurstöðuna og skaðað hagsmuni ríkissjóðs.“

Í grunninn snýr gagnrýni sem sett er fram að því að allir sem að málinu komu, fjármálaráðuneytið, Bankasýslan og þingnefndir, hafi brugðist þeirri skyldu sinni að hámarka söluverðmætið.

Kemur jafnframt fram að þrátt fyrir upplýsingar frá fjármálaráðgjafa um að óvenjulegt sé að einkafjárfestum, sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar, sé boðin þátttaka í sölu, hafi ráðuneyti og Bankasýslan ákveðið að heimila þátttöku einkafjárfesta sem væru skilgreindir sem hæfir fjárfestar af söluaðilum útboðsins. Engar leiðbeiningar eða reglur hafi hins vegar verið gefnar út um þau skilyrði sem slíkir fjárfestar þyrftu að uppfylla.