„Ég fór að sofa í íbúðinni hjá kærastanum mínum. Ég man eiginlega ekkert meira, þar til ég vakna rúmum mánuði síðar í spítalarúmi í Svíþjóð,“ sagði hin 23 ára gamla Sólrún Alda Waldorff, sem slasaðist illa í bruna í kjallaraíbúð í Mávahlíð í október. Sólrún Alda sagði sína sögu í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld.

Eldurinn kviknaði út frá brennandi potti, bæði hún og kærasti hennar, Rahmon Anvarov, voru sofandi en slökkviliði tókst að bjarga þeim út um glugga. Sólrún Alda var í dái í rúman mánuð eftir brunann, fyrst á Landspítalanum en hún var svo flutt til Svíþjóðar. Hún hlaut þriðja stigs bruna og hefur þurft að fara í fjölda aðgerða, hún hefur nú verið útskrifuð en framundan eru húðígræðslur og mikil endurhæfing.

Hún og Rahmon hafa verið í endurhæfingu á Grensás síðan fyrir jól. „Ég hugsa að þetta hafi styrkt sambandið okkar rosalega mikið,“ sagði Sólrún Alda. „Við höfum styrkt hvort annað rosalega mikið í þessu og höldumst í hendur í gegnum þetta.

Læknar óttuðust um tíma að hún væri með heilaskaða eða lömuð á annarri hlið, svo reyndist ekki vera. Hefur hún sýnt ótrúlegan viljastyrk í gengum sársaukafullt bataferlið. „Ég næ að taka eitt skref, tvö skref. Rosalega erfiðlega en það tókst og ég fékk svona: ókei, ég get þetta, ég get haldið áfram. Læknarnir voru rosalega undrandi hvað ég tók öllu rosalega vel og það gekk allt bara mikið hraðar fyrir sig en venjan er. Og bara já, nú hálfu ári síðar, og manni líður bara ágætlega.“

Þau eru bæði ákveðin að lifa lífinu áfram „Það hefur svo sem lítið breyst hjá okkur hvað plönin varðar. Ég byrja í Háskólanum aftur núna í september og ætla að klára þar sálfræði. Og kærastinn minn er að leita að vinnu eftir slysið.“