Sólon R. Sigurðs­son, fyrr­verandi banka­stjóri, er látinn, átt­ræður að aldri. Sólon lést á Land­spítalanum síðast­liðinn þriðju­dag. Greint er frá and­láti hans í Morgun­blaðinu í dag.

Sólon stundaði nám við Mennta­skólann í Reykja­vík á árunum 1958 til 1962 en á loka­ári sínu hóf hann störf hjá Lands­bankanum, fyrst sem al­mennur starfs­maður, full­trúi, gjald­keri og deildar­stjóri til ársins 1972. Þá hélt hann til London til að kynna sér banka­mál enn frekar og vann hjá Scandinavian Bank til ársins 1973 og stundaði nám hjá National West­min­ster Bank og Manufacturers Hann­over Trust.

Hann sneri aftur til Ís­lands 1973 og var deildar­stjóri hjá Lands­bankanum til 1978 að hann varð úti­bús­stjóri Lands­bankans í Snæ­fells­úti­búi. Hann hóf störf hjá Búnaðar­bankanum árið 1983 og varð að­stoðar­banka­stjóri og for­stöðu­maður er­lendra við­skipta.

Hann var svo ráðinn banka­stjóri Búnaðar­bankans árið 1990 og gegndi því starfi til ársins 2003 er bankinn sam­einaðist Kaup­þingi. Hann varð annar banka­stjóri KB banka, þar til hann lét af störfum árið 2004.

Sólon kom víða við í at­vinnu­lífi og fé­lags­störfum. Hann var stjórnar­for­maður VISA Ís­land, Lýsingar fjár­mögnunar­fyrir­tækis og Sjó­vár. Þá hann sat hann í stjórn Hand­knatt­leiks­ráðs Reykja­víkur og í vara­stjórn HSÍ um skeið.

Eigin­kona Sólons var Jóna Vest­fjörð Árna­dóttir en þau gengu í hjóna­band þann 29. desember 1962. Jóna lést þann 19. maí síðast­liðinn. Þau áttu saman þrjú börn, níu barna­börn og sex barna­barna­börn.