Sólon R. Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri, er látinn, áttræður að aldri. Sólon lést á Landspítalanum síðastliðinn þriðjudag. Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.
Sólon stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1958 til 1962 en á lokaári sínu hóf hann störf hjá Landsbankanum, fyrst sem almennur starfsmaður, fulltrúi, gjaldkeri og deildarstjóri til ársins 1972. Þá hélt hann til London til að kynna sér bankamál enn frekar og vann hjá Scandinavian Bank til ársins 1973 og stundaði nám hjá National Westminster Bank og Manufacturers Hannover Trust.
Hann sneri aftur til Íslands 1973 og var deildarstjóri hjá Landsbankanum til 1978 að hann varð útibússtjóri Landsbankans í Snæfellsútibúi. Hann hóf störf hjá Búnaðarbankanum árið 1983 og varð aðstoðarbankastjóri og forstöðumaður erlendra viðskipta.
Hann var svo ráðinn bankastjóri Búnaðarbankans árið 1990 og gegndi því starfi til ársins 2003 er bankinn sameinaðist Kaupþingi. Hann varð annar bankastjóri KB banka, þar til hann lét af störfum árið 2004.
Sólon kom víða við í atvinnulífi og félagsstörfum. Hann var stjórnarformaður VISA Ísland, Lýsingar fjármögnunarfyrirtækis og Sjóvár. Þá hann sat hann í stjórn Handknattleiksráðs Reykjavíkur og í varastjórn HSÍ um skeið.
Eiginkona Sólons var Jóna Vestfjörð Árnadóttir en þau gengu í hjónaband þann 29. desember 1962. Jóna lést þann 19. maí síðastliðinn. Þau áttu saman þrjú börn, níu barnabörn og sex barnabarnabörn.