Skíðaiðkendur geta tekið gleði sína á ný en opið er í Bláfjöllum í dag í annað sinn á þessu tímabili.

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna segir í samtali við Fréttablaðið að heimsbikarfæri sé í fjallinu.

„Það er æðislegt veður, logn og heiðskírt og frábært færi. Fólk fór að streyma að strax þegar við opnuðum klukkan tvö í dag og það er margt í fjallinu," segir Magnús.

Magnús segir að næstu dagar líti vel út og býst við því að fjallið verði opið næstu daga. „Hér hefur loksins slegið á þessa hvössu Norðanátt og þetta lítur nokkuð vel út næstu daga, ég er bjartsýnn á að það verði skíðaveður fram yfir helgi."

Takmarkanir vegna COVID

Selt er í fjallið í tveimur hollum og mega 500 manns vera í hvoru holli, að undanskildum vetrarkortshöfum. Fyrra hollið er frá klukkan 14:00 til 17:30 og það síðara frá klukkan 17:30 til 21:00.

Enn er ekki búið að opna allar lyfturnar sökum snjóleysis. Að sögn Magnúsar verða fjöldatakmarkanir í Bláfjöllum endurskoðaðar þegar að því kemur.

Gestir skíðasvæðanna bera ábyrgð á eigin sóttvörnum en grímuskylda er við upphaf lyftu, við skála, salerni, í skíðaleigu og á öllum öðrum stöðum þar sem fólk safnast saman. Öll miðasala fer fram á netinu en vetrarkorthafar og gestir á göngusvæði þurfa ekki að bóka tíma á svæðið heldur geta mætt hvenær sem er. Veitingasala er lokuð.