Kynjafræðingarnir Sóley Tómasdóttir og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir gagnrýna setninguna sem er aftan á nýjum bolum góðgerðarfélagsins Konur eru konum bestar á samfélagsmiðlinum Twitter.

„Ég er enn þá að reyna að botna í þessu bolarugli. Þekkiði einhverja manneskju sem veit ekki neitt?“ spyr Sóley og veltir því fyrir sér hvort hún sé vond við konur ef henni þykir herferðin vanvirðing við femínska baráttu.

Hanna Björg svarar í ummælum við tísti Sóleyjar „Já þetta er ekki beint sterk og beitt herferð.“

Þá veltir Hanna Björg því einnig fyrir sér hver meiningin sé á bak við setninguna.

Setningin sem um ræðir og er aftan á fyrrnefndum bolum er, Engin veit neitt og allir eru bara að gera sitt besta, og er hönnun listakonunnar Kristínar Dóru Ólafsdóttur. Setningin hefur prýtt mörg verka hennar síðastliðin sex ár og þóttu konunum á bakvið góðgerðarfélagið hún eiga vel við.

„Setningin á svo vel við í okkar á­gæta á­taki sem snýst ein­mitt um það að við erum öll bara mann­leg og að gera okkar allra besta í mis­jöfnum að­stæðum. Það er enginn með allt uppá 10 og þannig verður það á­fram. Það er alltaf hægt að leggja á­herslu á það já­kvæða, koma fram við náungann af virðingu, velja að sam­gleðjast frekar en að sýna öfund, hrósa og styðja við bakið á næstu konu – sem veit ekki neitt en er að gera sitt besta,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir á vef Trendnet.

Áminning um sjálfsmildi

Fyrrnefnd fjáröflun fór af stað í sjötta sinn af stað síðastliðinn sunnudag og rennur allur ágóði sölunnar til samtakanna Ljónshjarta þar sem makar og börn sem hafa upplifað missi geta sótt þjónustu.

Að sögn Kristínar Dóru í samtali við Fréttablaðið um helgina felist áminning um sjálfsmildi í setningunni.

„Ég er mjög mikil tals­kona þess að fólk sýni sér og öðrum sjálfs­mildi og að koma vel fram við náungann. Við þurfum ekki að rífa hvort annað niður, sama hvort það eru konur eða önnur kyn. Þetta á við alla og það þurfa allir að vanda sig við það að standa saman,“ sagði Kristín Dóra.