Sól­borg Guð­brands­dóttir hlaut í gær titilinn Fram­úr­skarandi ungur Ís­lendingur árið 2022 fyrir fram­lag sitt og af­rek á sviði mennta­mála. Verð­launin veittu þau Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands og Rík­ey Jóna Ei­ríks­dóttir, lands­for­seti JCI hreyfingarinnar.

„Sól­borg Guð­brands­dóttir er braut­ryðjandi í bar­áttu mann­réttinda og réttinda kvenna. Hún berst gegn skað­legu feðra­veldi og nauðgunar­menningu, hefur hvatt ungt fólk til að breyta rétt og veitt þeim inn­blástur,“ segir í um­sögn dóm­nefndar.

Sólborg stofnaði og hélt uppi Instagram síðunni Fávitar á árunum 2016 til 2020, en á þeim vettvangi fræddi hún ungt fólk um kynlíf, samskipti og fordóma. Þá skrifaði hún og gaf út bækurnar Fávitar og Aðeins færri fávitar, en þriðja bókin, Fávitar og fjölbreytileikinn, kom út í síðasta mánuði.

Auk þess hefur hún haldið fjölda fyrirlestra í grunnskólum og framhaldsskólum um land allt og frætt ungmenni

Verð­launin hafa verið veitt ár­lega síðast­liðin tuttugu ár, en þau eru miðuð að ungu fólki á aldrinum á­tján til fjöru­tíu ára sem er að takast á við krefjandi og at­hyglis­verð verk­efni. Meðal þeirra sem hafa hlotið titilinn síðustu ár eru Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, Ævar Þór Bene­dikts­son, bókar­höfundur og leikari, Emilíana Torrini, söng­kona og Sæ­var Helgi Braga­son, stjörnu­fræðingur.

Á hverju ári óskar JCI hreyfingin eftir til­nefningum til verð­launanna og dóm­nefnd velur síðan tíu ein­stak­linga sem hljóta viður­kenningu fyrir að vera Fram­úr­skarandi ungir Ís­lendingar vegna fram­lags þeirra til ís­lensks sam­fé­lags. Þá hlýtur einn í þeim hópi, sem þykir skara sér­stak­lega fram úr, sjálfan titillinn.

Dóm­nefnd skipuðu þau Þórunn Eva Páls­dóttir, Fram­úr­skarandi ungur Ís­lendingur ársins 2021, Ey­vindur Elí Alberts­son, verk­efnis­stjóri hjá Reykja­víkur­borg og senator JCI, Geir Finns­son, for­seti LUF, Ragn­hildur Helga­dóttir, rektor Há­skólans í Reykja­vík og Rík­ey Jóna Ei­ríks­dóttir, lands­for­seti JCI 2022.