Ragnar Friðrik Ragnars flugstjóri flaug í dag átta hringi í kringum Ísafjarðardjúpið áður en hann gat loks lent vélinni. Hann hlaut fyrir það hrós dagsins á Twitter en hann segir afar gleðilegt að hafa náð að koma farþegum alla leið, og að fá jákvæðni í umræðuna.

„Það er mjög gleðilegt að sjá ánægju Brynju með störf mín,“ segir Ragnar Friðrik Ragnars flugstjóri hjá Icelandairog vísar þar í færslu sem birtist á Twitter um flugið.

Það hefur verið þín ætlun að lenda vélinni?

„Já, það var planið að reyna það. Maður reynir alltaf að koma farþegum öruggum á áfangastað en svona fyrir jólin þá auðvitað er gleðilegt þegar það heppnast,“ segir hann.

Hann segir að þessar aðstæður skapist þó oft við Ísafjörðinn.

„Þetta var týpískt veðurfar að vetri. Norðaustan éljagangur og maður þarf að sæta færis. Þetta er sérstakur flugvöllur. Það er ekki aðflug inn á völlinn. Hann er í Skutulsfirði en aðflugið er í Ísafjarðardjúpinu. Við þurfum að vera komnir í sjónflug til að komast inn í Skutulsfjörð og lenda á flugvellinum. Það þarf því að sæta færis á milli élja til að ná að lenda. Þetta er mjög algengt að lend í þessu. Við þurfum að biðfljúgja inn í djúpið og bíða eftir því að élin rúlli fram hjá og stundum tekst það og stundum tekst það ekki. Spáin var þannig fyrir daginn að við vorum með éljagangsspá og tókum því auka eldsneyti með ef við kæmust ekki beint inn,“ segir Ragnar og að þeir hafi gefið sér góðan tíma til að lenda.

„Það þarf smá þrjósku í að bíða eftir að þetta komi,“ segir hann léttur.

Hvað varðar síðustu daga viðurkennir hann að þeir hafi verið mikið basl en eins og greint hefur verið frá var víða ófært, ekki flogið og ekki hægt að fara á milli landshluta.

„Það er ágætt að fá jákvæðni inn í þetta,“ segir hann.

Enginn hristingur

Brynja Huld Óskarsdóttir var ein farþega í vélinni og deildi í dag færslu á Twitter þar sem hún hrósaði Ragnari fyrir lendinguna.

„Hrós dagsins (vikunnar jafnvel) á Ragnar Friðrik Ragnar flugstjóri hjá @Icelandair fyrir að sóla ekki bara einn, eða tvo, heldur a.m.k. 8 hringi á #TF-jól fyrir botni Ísafjarðardjúps í engu skyggni og ná samt að lauma vélinni inn fjörðinn fagra milli élja.“

Í samtali við Fréttablaðið segir Brynja að þetta hafi verið ótrúlegt.

„Það var enginn hristingur og ekki neitt, ótrúlegur flugmaður. Vissi greinilega að það væri kyrrt yfir hálendinu við Reykjanes og sólaði þar í örugglega hátt í klukkutíma.“