Katrín Odds­dóttir, for­maður Stjórnar­skrár­fé­lagsins, hafnar full­yrðingum Ungra sjálf­stæðis­manna um að fé­lagið standi nú fyrir upp­lýsinga­ó­reiðu vegna um­ræðunnar um nýja stjórnar­skrá. Halla Sig­rún Mathiesen, for­maður SUS, segir nýja vef­síðu fé­lagsins til­komna vegna rang­færslna fyrr­nefnds fé­lags um stjórnar­skrána.

Frétta­blaðið heyrði í Katrínu og Höllu í kvöld. Til­efnið er ný vef­síða Ungra sjálf­stæðis­manna, stjornarskrain.com þar sem fé­lagið segist vera í „bar­áttu gegn upp­lýsinga­ó­reiðu“ um stjórnar­skrána.

Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá hafa undan­farið staðið í ströngu við söfnun undir­skrifta þeirra sem krefjast þess að Al­þingi lög­festi nýja stjórnar­skrá. Þá hefur hópur ungs fólks með Ósk Elfardsdóttur og Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur í fararbroddi gert myndbönd um málið og látið sig nýju stjórnarskrána varða í samfélgsmiðlum. Aug­lýsing þeirra með þjóð­þekkta leikara í farar­broddi þar sem þeir ræddu fisk­veiði­stjórnunar­kerfið og stjórnar­skrána, vakti lands­at­hygli.

Stjórnar­skráin og fisk­veiði­lög­gjöf ó­skyld mál

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Halla Sig­rún að­spurð að hug­myndin að vef­síðu Ungra sjálf­stæðis­manna um stjórnar­skrána hafi kviknað í kjöl­far fyrrnefndar aug­lýsinga­her­ferðar.

„Já, í stuttu máli. Við urðum bara vör við það að fólk var orðið svo­lítið ruglað í ríminu varðandi um­ræðuna, um þessa svo­kölluðu nýju stjórnar­skrá og þá kannski sér­stak­lega eftir að þessi mynd­bönd frá Stjórnar­skrár­fé­laginu voru birt á sam­fé­lags­miðlum,“ segir Halla.

Hún segir að mörgum hafi þótt vanta mót­vægi í um­ræðuna við því sem hún segir einhliða mál­flutningi Stjórnar­skrár­fé­lagsins. Ekki hafi allir vitað hverju þeir eigi að trúa í málinu.

„Þess vegna á­kvað stjórn SUS að stofna þessa síðu þar sem fólk getur aflað sér upp­lýsinga um stjórnar­skrána og breytingar á henni og þær breytingar sem hafa verið gerðar hingað til,“ segir Halla. Að­spurð að því hvers vegna þetta mál, stjórnar­skráin, veki svona mikla um­ræðu nú bendir Halla á að um sé að ræða mikil­vægt mál.

„Stjórnar­skráin er grund­vallar­plagg. Þetta er rammi fyrir öll önnur lög sem eru sett í landinu og mögu­legar af­leiðingar þess að inn­leiða nýja stjórnar­skrá sem er ekki tæk sem slík gæti skapað gríðar­lega réttar­ó­vissu,“ segir Halla.

„En að sjálf­sögðu voru það þessar rang­færslur sem endan­lega gerðu það að verkum að við á­kváðum að stíga inn í þessa um­ræðu. En jafn mikil­væg um­ræða og þessi verður að fara fram af yfir­vegun og byggja á stað­reyndum,“ segir hún og tekur fram að já­kvætt sé að um­ræðan fari nú fram.

„En í grunninn er mörgu sem haldið fram að nýja stjórnar­skráin „muni laga,“ bara rangt. Það virðist vera ein­hver mis­skilningur um það hvað það er sem þarf að koma fram í stjórnar­skrá og hvað það er sem er svo út­fært í al­mennum lögum, eins og til dæmis lög um stjórn fisk­veiða. Að mínu viti er þetta bara sitt­hvor um­ræðan. Það er ein um­ræða um stjórnar­skrána og svo er önnur um­ræða hvernig við viljum að lög um stjórn fisk­veiða sé og gjald­heimta þar, þannig að það að blanda þessum umræðum saman, gengur ekki upp að mínu viti,“ segir Halla.

„Þau halda því fram í sínum mál­flutningi að hér liggi fyrir ný stjórnar­skrá sem hafi verið sam­þykkt af þjóðinni. Þegar hið rétta er að þjóðin svaraði sex spurningum í ráð­gefandi þjóðar­at­kvæða­greiðslu árið 2012. Kosningaþátttaka var undir 50% og öllum var gert ljóst að þessi kosning væri ráð­gefandi. Og svo hafa þessar til­lögur stjórn­laga­ráðs verið af­hentar Al­þingi og það er ein­mitt verið að líta til þessarar ráð­gefandi þjóðar­at­kvæða­greiðslu í yfir­standandi vinnu um endur­skoðun á stjórnar­skránni.“

Segir vef­síðuna minna sig á skáld­sögu Geor­ge Orwell

Katrín Odds­dóttir, for­maður Stjórnar­skrár­fé­lagsins, hafnar því í sam­tali við Frétta­blaðið að fé­lagið standi fyrir upp­lýsinga­ó­reiðu vegna um­ræðunnar um nýja stjórnar­skrá. Hún segir nýja síðu Sjálf­stæðis­manna, minna sig á skáld­söguna 1984 eftir Geor­ge Orwell.

„Í fyrsta lagi finnst manni frá­bært að sam­fé­lags­um­ræðan sé farin að snúast um þetta stóra mál. Það er frá­bært og auð­vitað erum við glöð að Ungir sjálf­stæðis­menn og allir sem vilja tali um stjórnar­skrár­málið því það skiptir svo miklu máli fyrir alla,“ segir Katrín.

Hún segir ein­kenni­legan tón blasa við sér á síðunni en tekur fram að hún hafi ekki enn haft tíma til að skoða hana í þaula.

„En það sem ég hef skoðað, til dæmis bara byrjunina þar sem þetta er skil­greint sem bar­átta gegn upp­lýsinga­ó­reiðu, fékk ég fékk smá svona 1984 hroll við að sjá,“ segir Katrín.

Svo segir að um­ræða um stjórnar­skrána og breytingar á henni þurfi að byggja á stað­reyndum. „Hér verður haldið utan um stað­reyndir.“ Þarna er ör­lítið svona eins og þau sem haldi úti þessari síðu telji sig vera svona hand­hafa sann­leikans og að þarna komi fram ó­um­deildar stað­reyndir þar sem annars staðar hefur verið sagt að sé eitt­hvað bull eða ein­hver þvæla. Þetta er kannski það fyrsta sem maður heggur eftir,“ segir hún.

Bent sé á greinar og hljóð­brot á síðunni „með því fólki sem þau telja að hafi hina réttu skoðun,“ að því er Katrín segir.

„Það eru varla allt stað­reyndir sem þar kemur fram, heldur meira svona allss­konar skoðanir og svo­leiðis, sem er allt í lagi.

En það sem þau gera þarna í kaflanum „Stöndum vörð um stað­reyndirnar“ er að taka dæmi sem eru svo langt frá því að geta talist stað­reyndir að það er ekki einu sinni fyndið,“ segir Katrín.

Stjornarskra.com/Skjáskot

Hún bendir á full­yrðingar sem finna megi á síðunni um að Al­þingi virði vissu­lega þjóðar­at­kvæða­greiðsluna um stjórnar­skrána frá árinu 2012 þar sem hún hafi verið ráð­gefandi.

„Þarna eru þau sem­sagt að spyrja hvort Al­þingi sé að virða hana og þau fá út að Al­þingi sé að virða hana af því að hún var bara ráð­gefandi. En það vita allir á þessu landi að Al­þingi er ein­mitt ekki að virða niður­stöðu þessarar þjóðar­at­kvæða­greiðslu. Það var mjög skýrt að í henni var spurt hvort að ætti að leggja nýju stjórnar­skrána til grund­vallar sem frum­varp að stjórnar­skrá Ís­lands. Það hefur ekki verið gert og þar með er ekki verið að virða hana,“ segir hún.

„Þetta er svo full­kom­lega laust við það að vera stað­reynd og miklu líkara því að vera út­úr­snúningur, að maður getur ekki annað en bara brosað út í annað.“

Staðreynd: 24.500 staðfestar undirskriftir kjósenda sem krefjast lögfestingar nýju stjórnarskrárinnar! #hvar #stjornarskra

Posted by Stjórnarskrárfélagið -The Icelandic Constitution Society on Monday, 21 September 2020

Þú hafnar því að Stjórnar­skrár­fé­lagið standi fyrir upp­lýsinga­ó­reiðu?

„Já að sjálf­sögðu hafna ég því. Og mér þætti bara mjög gaman að sjá ein­hver merki þess. Það getur vel verið að fólk sé með mis­munandi skoðanir á ýmsum hlutum en það er full­langt gengið að halda því fram að maður sé í fyrsta lagi hand­hafandi sann­leikans og sá eini sem getur beint ljósi á hinar eigin­legu stað­reyndir málsins.

Sér­stak­lega þegar komið er fram með svona full­yrðingar eins og þessa, að Al­þingi sé vissu­lega að virða þjóðar­at­kvæða­greiðsluna því hún var ekki bindandi. Þetta er náttúru­lega bara al­gjör rök­leysa,“ segir Katrín.

Hún segist fyrst og fremst vilja hvetja fólk, óháð skoðunum sínum, að taka þátt í um­ræðunni um stjórnar­skrána á sam­fé­lags­miðlum undir myllu­merkinu #stjórnar­skráin.

„Það er ekki eins og Ungir sjálf­stæðis­menn geti átt ein­hvern einka­rétt á þessu myllu­merki og væri bara gaman að sjá sem flesta nota það.“

Að­spurð út í full­yrðingar á síðunni um að fisk­veiði­stjórnunar­kerfi sé á­kveðið með lögum en ekki stjórnar­skrá, segir Katrín svo vera.

„Í fyrsta lagi er það alveg rétt að stjórn fisk­veiða er á­kveðin með lögum.´Eg held það sé engin sér­stök deila um það. En það er hins­vegar líka stað­reynd, ef við leyfum okkur að nota það þunga orð eins og Ungir sjálf­stæðis­menn, að við erum með laga­á­kvæði í lög um stjórn fisk­veiða sem segir að þjóðin sé eig­andi auð­lindanna. Samt erum við líka með þá stöðu að þjóðin nýtur ekki nema eitt­hvað um 20 prósent af auð­lindar­entunni svo­kölluðu.

Þannig að það sem ég myndi segja við þessu er að lög­gjafinn vissu­lega gæti á morgun breytt kvóta­kerfinu og gert það rétt­látara en hins­vegar höfum við séð á síðustu ára­tugum að lög­gjafinn ræður ekki við það verk­efni. Þess vegna þarf stjórnar­skrár­gjafinn, sem er þjóðin sjálf, að taka þetta verk­efni frá Al­þingi, þar sem eru því miður allt of mikil hags­muna­tengsl við út­gerðina, og setja þetta hrein­lega í sín grunn­lög og kveða þar á um hluti eins og að það sé bannað að veð­setja og fram­selja svona heimildir og annað sem bara verður að koma inn til þess að kerfið geti með ein­hverjum hætti talist rétt­látt út frá hags­munum þjóðarinnar.“