Þjónustufulltrúi, sem var rekin fyrir að senda kynferðisleg skilaboð á samstarfsmann sinn, hafði betur gegn Strætó í skaðabótamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur og fékk 2,5 milljónir í bætur.

Konan sagðist hafa þjáðst af streitu, slæmu þunglyndi og sofið illa eftir að hafa verið sagt upp. Lagði hún fram læknisvottorð til stuðnings sínu máli. Hún taldi uppsögnina hafa verið ólöglega og að sér hafi verið mismunað við starfslok.

Málið varðar skilaboð sem konan sendi á samstarfsmann sinn sem mannauðsstjóri fannst jaðra við kynferðislega áreitni. Skilaboðin voru tekin fyrir á fundi með yfirmanni, mannauðsstjóra og trúnaðarmanni.

Þjónustufulltrúinn sagði að hægt væri að túlka skilaboðin mismunandi og að hún hafi talið þau í léttum dúr. Engin rannsókn fór fram á samskiptunum í samræmi við reglugerðir áður en málinu var lokið með starfslokasamningi.

Konan sagði fundinn hafa verið meiðandi og niðurlægjandi og eðli málsins samkvæmt hafði það neikvæð áhrif á lífshlaup hennar og starfsferil. Var henni í lok fundarins gert að yfirgefa vinnustaðinn án þess að kveðja vinnufélaga sína. Dómari tók undir með stefnanda um að fyrirvaralaus uppsögn hafi verið til þess fallin til að skapa umtal á vinnustaðnum.

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem hafnað var kröfu Strætó um frávísun og konunni dæmdar 2,5 milljónir í bætur.