Anne McClain, bandarískur geimfari hjá geimvísindastofnuninni NASA, hefur verið sökuð um að fremja fyrsta glæpinn í geimnum. Fyrrverandi kona McClain, Summer Worden, sem er fyrrum flughersforingi í bandaríska flughernum, hefur sakað geimfarann um auðkennisþjófnað (e. identity theft). BBC greinir frá.

Á McClain að hafa stolið auðkennum fyrrum konu sinnar til nálgast upplýsingar inn á bankareikningi hennar og gerði hún það á meðan hún var um borð í alþjóðlegu geimstöðinni. McClain var í sex mánuði úti í geim.

Málið er til rannsóknar hjá NASA og ef Worden segir satt þá er um að ræða fyrsta glæpinn sem hefur verið framinn úti í geimnum, sem vitað er um. Foreldrar Worden sögðu að McClain hafi gert þetta til að nálgast upplýsingarnar til að vera með yfirhönd í forræðismáli.

Lögmaður McClain segir að geimfarinn neiti sök í málinu en játi þó að hafa skoðað bankareikning fyrrum konu sinnar til þess að athuga hvort Worden væri að sjá nógu vel um son sinn.

Málið þykir einstakt og er óvíst hvort það fari fyrir dóm. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um friðsamleg afnot af geimnum hefur ályktað að geimurinn sé sameign mannkyns. Ekkert ríki hefur forráðasvæði í geimnum. Vegna þessa má spyrja sig að því hvernig refsilögsögureglum skuli háttað í geimnum yfir geimskipum og áhöfnum þeirra. Alþjóðlega geimstöðin er samvinnuverkefni milli Evrópuríkja, Bandaríkjanna, Rússlands, Kanada og Japan.

Ef glæpur er framinn á alþjóðlegu geimstöðinni þá gæti vel verið að málið falli í landi þess geimfara sem fremji glæpinn. Enginn einstaklingur hefur áður verið sakaður um að fremja glæp úti í geim. Málið á sér enga hliðstæðu og verður áhugavert að fylgjast með því hvort kæra verði lögð fram og hvar og undir hvaða lögsögu.