„Yfirlýsing biskups Íslands í málinu er skýr og ákveðin og hefur ekki breyst,“ segir Pétur Markan biskupsritari spurður um hvort til standi að séra Gunnar Sigurjónsson, fyrrverandi sóknarprestur í Digraneskirkju, komi aftur til starfa.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup vék Gunnari úr embætti sóknarprests í kjölfar niðurstöðu óháðs teymis þjóðkirkjunnar sem taldi Gunnar hafa gerst sekan um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti gegn sex konum.

Valgerður Snæland Jónsdóttir, formaður sóknarnefndar Digraneskirkju, segir sóknarnefnd kirkjunnar einhuga í ósk sinni um að séra Gunnar komi til starfa aftur.

Biskup vék Gunnari Sigurjónssyni úr embætti sóknarprests Digraneskirkju.

„Það er mikið uppbyggingarstarf fyrir höndum, en þetta er bara verkefni sem við þurfum að vinna. Digraneskirkja á eftir að blómstra eins og hún hefur gert síðastliðin 30 ár undir stjórn séra Gunnars Sigurjónssonar sóknarprests,“ segir Valgerður.

Sigríður Sigurðardóttir, kirkjuvörður í Digraneskirkju, sakar Valgerði um andlegt og líkamlegt ofbeldi á vinnustað. Valgerður og önnur kona hafi meðal annars kreist hana á milli sín.

„Ég stóð þarna, milli þessara kvenna, og þetta var svo ógeðslegt að ég get ekki lýst því. Mig langaði helst að brenna fötin mín,“ lýsir Sigríður sem kveðst nú komin í veikindaleyfi vegna málsins.

Þegar Fréttablaðið spurði Valgerði um þessar ásakanir sleit sóknarnefndarformaðurinn símtalinu.

Sóknarnefndarformaður sakaður um að beita ofbeldi

„Þetta er guðshús og fullt af kærleik og hlýju, en þetta er náttúrulega eitur, að hafa svona manneskju innandyra,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, kirkjuvörður í Digraneskirkju, sem ber formann sóknarnefndar þungum sökum.

Að sögn Sigríðar er mikið uppnám í Digraneskirkju, sérstaklega eftir að mál séra Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests kirkjunnar, kom upp í fyrra.

Sigríður segir Valgerði Snæland Jónsdóttur, sem tók fyrir nokkrum vikum við sem formaður sóknarnefndar, hafa beitt sig bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi í kirkjunni.

Valgerður sleit samtali við blaðamann er hún var spurð um ásakanir kirkjuvarðarins.

Sigríður segir málið snúast um atvik sem átti hafi sér stað í kirkjunni í lok mars síðastliðins.

Sigríður Sigurðardóttir kirkjuvörður.

„Þetta var í rauninni bara í eitt skipti, en þær voru tvær sem stóðu að þessu, Valgerður og vinkona hennar,“ segir Sigríður sem kveðst hafa verið á heimleið og ætlað að kveðja þegar Valgerður og önnur sóknarnefndarkona hafi farið að úthúða henni.

„Í sameiningu drulla þær yfir mig. Hvað ég sé köld og ómannblendin og brosi aldrei. Ég væri einhver járndrottning og ætti í raun ekki að vera í starfi í kirkju þar sem nærgætni þyrfti við,“ segir Sigríður.

Þannig segir Sigríður að ásakanirnar hafi haldið áfram í nokkra stund. Uppákoman hafi verið sem blaut tuska í andlitið á henni.

„Þetta var svo lamandi og ég vissi ekkert hvernig ég átti að vera. Ég ákvað þó að fara mjúku leiðina og segi við þær að ég hefði ekki haft hugmynd um þetta og ég skyldi reyna að bæta mig,“ segir Sigríður. Þegar hún hafi svo staðið upp til að fara hafi þær komið að henni, önnur að framan og hin að aftan, og kreist hana sín á milli.

„Þær segja: Elsku Sigga mín, við erum bara að gefa þér gjöf svo þú getir staðið þig betur,“ segir Sigríður.

„Ég lamaðist. Ég stóð þarna, milli þessara kvenna, og þetta var svo ógeðslegt að ég get ekki lýst því. Mig langaði helst að brenna fötin mín. Ég faðma ekki hvern sem er og maður hafði ekki faðmað fólk í tvö ár vegna Covid,“ segir Sigríður.

Eftir þennan atburð kveðst hún hafa farið að efast um starfsgetu sína og sitt eigið sjálf.

„Ég hafði samband við teymi kirkjunnar í lok sumars þar sem þetta grasseraði innra með mér, þessi sjálfsefi. Ég var svo boðuð í skýrslutöku í þarsíðustu viku,“ segir Sigríður og kveðst þá hafa farið í veikindaleyfi.

„Þetta er núna í ferli hjá teyminu og hvað kemur út úr því veit ég ekki. En ég vil láta ræða við þessa konu um það sem hún gerði mér og koma þessari vitneskju til sóknarnefndar. Til þess að vita hvort þau vilji virkilega hafa þessa konu sem formann. Hún er yfirmaður minn og ég get ekki unnið þannig,“ segir Sigríður sem ítrekar að mikið uppnám sé í Digraneskirkju.

„Það er allt farið að snúast um þetta ofbeldismál á hendur séra Gunnari, hverjum er bolað í burtu og hver skal vera þarna yfir,“ segir Sigríður um stöðuna.

Aðspurð segist Sigríður hafa rætt við settan sóknarprest í kirkjunni, séra Sigurð Jónsson, um málið.

„Mér finnst ég koma svolítið alls staðar að lokuðum dyrum með það. Mér skilst að hvorki Biskupsstofa né prestar hafi vald til að stíga þarna inn í. Sóknarnefndin er séreining þar sem enginn yfirmaður er yfir og virðist fríhelguð af öllum sínum gjörðum,“ segir Sigríður kirkjuvörður.