Bret­land er fyrsta land heims til að veita leyfi fyrir notkun nýs lyfs gegn Co­vid-19 sem vonast er til að geti breytt miklu í bar­áttunni við far­aldurinn sem nú hefur dregið meira en 5,2 milljónir til dauða á heims­vísu.

Ekki liggur þó fyrir hve­nær lyfið verður í boði í Bret­landi þar sem það verður selt undir nafninu Lag­evrio. Lyfja­yfir­völd í Banda­ríkjunum funda síðar í mánuðinum um hvort veita eigi heimild til notkunar þess þar og er það einnig til skoðunar hjá lyfja­stofnun Evrópu.

Lyfið verður notað fyrir ein­stak­linga 18 ára og eldri sem greinast með Co­vid og eru með í það minnsta einn undir­liggjandi á­hættu­þátt, svo sem of­fitu eða hjarta­sjúk­dóma. Nú standa einnig yfir til­raunir á lyfinu með það að mark­miði að kanna hvort það gagnist til að koma í veg fyrir smit.

Það kallast molnupira­vir og er þróað af lyfjarisanum Merck og rann­sóknar­fyrir­tækinu Rid­geback Biot­heraputics. Það er veiru­hamlandi (e. anti­viral) lyf og skal tekið eins fljótt og auðið er eftir að já­kvæð niður­staða liggur fyrir úr Co­vid-prófi og innan við fimm dögum eftir að ein­kenni koma fram. Ein­staklingar með væg eða miðlungs­mikil ein­kenni þurfa að taka fjórar pillur, tvisvar á dag í fimm daga. Það virðist veita sömu virkni gegn öllum þeim af­brigðum Co­vid sem fram eru komin.

Talið er að hver með­ferðar­skammtur af molnupira­vir kosti um 2.350 krónur í fram­leiðslu.
Mynd/Merck

Hingað til hafa bólu­efni verið besta vopnið gegn Co­vid og er sú með­ferð sem nú er í boði gegn Co­vid oft og tíðum flókin og kostnaðar­söm. Sam­kvæmt rann­sóknum virðist lyfið draga úr líkum á and­láti eða inn­lögnum um helming hjá þeim sem eru í mestri hættu í að þróa með sér al­var­leg ein­kenni.

Merck gerir ráð fyrir að fram­leiða tíu milljónir með­ferðar­skammta af lyfinu fyrir árs­lok og hafa ríki víða um heim tryggt sér nánast allt það magn. Bretar hafa keypt tæp­lega fimm hundruð þúsund skammta nú þegar og Banda­ríkja­menn 1,7 milljónir. Þeir hafa sam­þykkt að borga um 700 dollara fyrir hvern með­ferðar­skammt, um 92 þúsund krónur. Sam­kvæmt út­tekt Harvar­d­há­skóla og King's College London kostar ein með­ferð með molnupira­vir Merck 18 dollara í fram­leiðslu, 2.350 krónur.

„Þetta er sögu­legur dagur fyrir land okkar, þar sem Bret­land er fyrsta land heims til að leyfa veiru­hamlandi lyf sem hægt er að taka heima gegn Co­vid-19,“ segir Sajid Javid, heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands. Unnið sé hörðum höndum að því að skipu­leggja hvernig koma megi lyfinu til fólks eins fljótt og auðið er.

Merck hefur gert sam­komu­lag við fram­leið­endur sam­heita­lyfja í Ind­landi um að fram­leiða ó­dýrari út­gáfur af molnupira­vir fyrir fá­tækari ríki heims. Það hlýtur engan á­góða af fram­leiðslunni eins lengi og far­aldurinn er skil­greindur sem neyðar­á­stand af Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni. Bólu­efna­fram­leið­endur hafa verið harð­lega gagn­rýndir fyrir að deila ekki for­múlum sínum með öðrum sem gætu fram­leitt þau á meðan þeir mala gull.