Sögulegt tap þingflokks Emmanuels Macron Frakklandsforseta í frönsku þingkosningunum hefur myndað mikla óvissu í frönskum stjórnmálum. Eftir að ljóst er að hreinn meirihluti Macrons er fallinn mun hann þurfa að treysta á bandalag við aðra flokka svo unnt sé að mynda meirihluta.

„Kostirnir eru ekki augljósir og staðan er mjög þröng,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur. „Þetta er sögulegt afhroð sitjandi forseta í þingkosningum í Frakklandi.“

Aðspurður um hver næstu skref Macrons gætu verið segir Eiríkur að Macron muni líklega reyna að höfða til Repúblikana sem hlutu 4,8 prósent atkvæða. „Það nægir honum, en þeir gætu reynst tregir í taumi, að minnsta kosti í formlegri samsteypustjórn.“

Þingflokkur Macrons er enn stærsti flokkur franska þingsins en þau 234 þingsæti sem flokkurinn hlaut eru þó langt frá hreinum meirihluta, en til þess að mynda meirihluta þarf minnst 289 sæti.

Niðurstöðum kosninganna hefur verið lýst sem persónulegum ósigri Macrons sem komi til með að minnka áhrif forsetans og mögulega setja svartan blett á arfleifð hans.

Á sama tíma og Macron missti fjöldamörg sæti, bætti öfgahægri flokkur Marine Le Pen við sig og vann kosningasigur sem skilaði 23,2 prósentum atkvæða, eða 90 sætum. Langt umfram allar kosningaspár. Öfgavinstri flokkur Jean-Luc Mélenchon tók þá 22% atkvæða, sem bendir til að miðjustefna Macrons í Frakklandi sé fallin.

Kosningaþátttaka í landinu var dræm en 46,23 prósent kjósenda skiluðu inn atkvæðum.