Vaxtahækkanir og óvissa í efnahagsmálum hafa leitt til umskipta á fasteignamarkaði sem fer nú kólnandi eftir langvarandi verðhækkanatíma.

Meira en fimmtungi færri íbúðir í fjölbýli voru seldar á höfuðborgarsvæðinu í síðastliðnum október samanborið við mánuðinn þar á undan. Ekki hafa verið seldar jafn fáar íbúðir í þessum fasteignaflokki í einum mánuði á suðvesturhorninu í meira en tvö ár.

Þetta kemur fram á fasteignamælaborði Deloitte sem er byggt á staðfestum sölutölum frá Þjóðskrá Íslands. Þar segir jafnframt að enda þótt salan hafi dregist saman til muna haldist verð á fasteignum svo til óbreytt á milli mánaða, en meðalverðið á fermetra í fjölbýli var 709 þúsund í október, tveimur þúsundum króna hærra en í september.

„Vaxtahækkanir og óvissa bíta augljóslega,“ segir Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreiningar hjá Deloitte, og metur það svo að þessi þróun haldi áfram í næsta mánuði, enda viðsjár í kjara- og efnahagsmálum.

Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreiningar hjá Deloitte.
Mynd/aðsend

Þróunin á fasteignamarkaði er sú sama hvað einbýli og fjölbýli varðar. Færri eignir eru seldar í báðum flokkum. Hvað einbýlin varðar voru 16 prósentum færri eignir af því tagi seldar í október í samanburði við september – og í þeim flokki heldur fermetraverð áfram að lækka, fór úr 647 þúsundum króna í 624 þúsund að meðaltali.

Ef þriggja mánaða ferli er skoðað hvað sérbýli varðar, frá ágúst til október, sést að lækkunin nemur sjö prósentum sem er öndvert við nærri tveggja ára verðþróun á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu – og raunar víðar um land, en langvarandi verðhækkanaferli virðist nú vera að baki.

„Verð fyrir fasteignir endurspeglar kaupgetu fólks til að fjárfesta. Það sem helst hefur áhrif á þetta mengi, eftirspurnarmegin, er kostnaðurinn við peninga, sem eru vextir – og hækkun þeirra hefur augljós áhrif til kólnunar,“ segir Ýmir Örn.

Ef horft er yfir landið allt sést að verð á fjölbýli hefur heldur hækkað á Norður- og Austurlandi, en lækkað á Suður- og Vesturlandi, samkvæmt mælaborði Deloitte.