Háskóli Íslands brautskráir í dag 2.594 nemendur úr grunn- og framhaldsnámi og er þetta mesti fjöldi sem hefur verið brautskráður í einu úr skólanum frá upphafi.

Til samanburðar voru 2.548 nemendur brautskráðir í fyrra sem var þá langmesti fjöldinn frá upphafi.

Í tilkynningu frá skólanum verða brautskráningarathafnirnar tvær og fara þær fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

Í fyrsta sinn í tvö ár mega gestir nú vera viðstaddir við athafnirnar og samfagna með brautskráningarkandídötum en það hefur ekki staðið til boða vegna Covid-19 faraldursins síðastliðin tvö ár.

Þá er dagurinn einnig sögulegur að því leyti að í dag munu fyrstu nemendurnir útskrifast úr meistaranámi í hagnýtri atferlisgreiningu og þroskaþjálfafræði til starfsréttinda.

Í febrúar síðastliðnum brautskráði Háskóli Íslands 455 nemendur og því hafa alls 3.049 útskrifast frá skólanum það sem af er ári.