Landsréttur hefur birt gæsluvarðhaldsúrskurð yfir erlendum karlmanni sem er grunaður um peningaþvætti ásamt þremur samlöndum sínum, konum. Maðurinn var handtekinn þann 20. janúar síðastliðinn, en gæsluvarðhaldið náði til 27. janúar. Ekki liggur fyrir hvort það hafi verið framlengt.
Fjórmenningarnir vöktu athygli tollvarða og lögreglumanna við eftirlit á Keflavíkurflugvelli og tóku þeir fyrst eftir tveimur kvennanna, sem þeir höfðu rætt við þær tveimur dögum áður þegar þær komu til landsins, en þá höfðu þær verið með litla fjármuni meðferðis.
Þær sögðust vera á leið til Ítalíu og höfðu verið á Íslandi í trúlofunarveislu frænku sinnar. Á meðan lögreglan og tollverðir ræddu við þær gekk karlmaðurinn fram hjá, en í úrskurði héraðsdóms segir að hann hafi verið flóttalegur í samskiptum og kvaðst ekki tala ensku.
Milljónir í bakpokum
Í kjölfarið voru þau þrjú tekin til skoðunar. Í bakpokum þeirra þriggja fundust þykkir peningaseðlabunkar. Einungis kemur fram hversu mikið var í bunka karlmannsins, en það voru 9055 evrur, sem jafngildir tæplega 1.4 milljónum króna.
Uppfletting í kerfum lögreglu leiddi í ljós að karlmaðurinn væri með nýleg ólokin mál hjá lögreglu, þar sem hann væri grunaður um peningaþvætti og sölu fíkniefna. Þremenningarnir voru þá handtekin grunuð um peningaþvætti.
Fjórði aðilinn kominn í vélina
Við rannsókn málsins kom í ljós að flug hefði verið bókað fyrir þremenningana sex dögum áður og væri sama símanúmerið skráð fyrir þau öll.
Auk þess kom í ljós að einnig hafði verið bókað fyrir fjórða einstaklinginn, konu sem var komin í vélina.
Lögreglan fóru að brottfararhliði flugsins og þar var konan tekin til skoðunar, en í fórum hennar fundust einnig talsvert magn af erlendum gjaldeyri.
Segir fjölskylduna hafa sent sér peningana
Daginn eftir handtökuna var skýrsla tekinn af manninum, sem neitaði sök og vildi meina að uppruni peninganna væri annars vegar sá að fjölskylda hans hefði sendi honum peninga inn á greiðslukort sem hann svo tók út hér á landi, og hins vegar að hann hafi komið með þá til landsins.
Maðurinn sagðist ekki kannast við konurnar þrjár og vildi meina að hin málin þar sem hann var til rannsóknar væru smámál.
Í gögnum málsins kemur fram að maðurinn hafi hringt í eina konuna á meðan þau voru bæðu stödd í flugstöðinni.
Maðurinn kunni að torvelda rannsókninni myndi hann ganga laus
Í úrskurðinum kemur fram að rannsókn málsins sé á frumstigi. Til rannsóknar sé uppruni peninganna sem fólkið hafði meðferðis á Keflavíkurflugvelli, tengsl þeirra, hugsanlegir vitorðsmenn þeirra á Íslandi og erlendis.
Auk þess eru möguleg tengsl við skipulagða brotastarfsemi á Íslandi könnuð, en lögreglan telur að maðurinn eigi aðild að útflutningi á ágóða af ólögmætri starfsemi eins og sölu fíkniefna.
Dómurinn féllst á það að ef maðurinn fengi að ganga laus kunni það að torvelda rannsókn málsins og gæti það haft áhrif á samseka í málinu.