Þó nokkrir virðast hafa brotið á út­göngu­banninu sem nú er í gildi í Bret­landi en að því er kemur fram í frétt Sky News um málið hafði lög­regla í nægu að snúast yfir helgina.

Til að mynda stöðvaði lög­regla sam­kvæmi í Hamps­hire á laugar­dag en þau fengu þau svör að fólkið sem stóð að sam­kvæminu væri ekki með­vitað um að heims­far­aldur geisaði þar sem þau „horfðu aldrei á fréttir.“

Í Suður-Wa­les þurfti lög­regla að hafa af­skipti af kynja­veislu á sunnu­dag og sam­komu þar sem garð­skála hafði verið breytt í bar á laugar­dag. Þá komu á fimmta tug manns saman í London á laugar­dags­kvöldinu fyrir svo­kallaðan bíla­hitting þar sem fólk virti ekki sam­komu­tak­markanir.

Víða annars staðar voru reglur brotnar og voru fjöl­margir sektaðir fyrir að brjóta reglur um sam­komur en lög­reglan í London sagði reglu­brjótana vera sjálfs­elska og á­byrgðar­lausa.

Erfiðar vikur fram undan

Far­aldurinn er í mikilli upp­sveiflu í Bret­landi en rúm­lega 3,4 milljón til­felli smits hafa nú verið stað­fest þar í landi og hátt í 90 þúsund látist eftir að hafa smitast. Þá hefur nýtt af­brigði veirunnar valdið miklum skaða og meira að segja dreift sér til annarra landa.

Vegna þessa var á­kveðið að út­göngu­bann myndi taka gildi þann 5. janúar síðast­liðinn, í þriðja sinn sem það hefur verið gert frá upphafi faraldursins, og þar með er fólk hvatt til að halda sig heima nema brýna nauð­syn beri til annars.

Matt Hancock, heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands, greindi frá því í sam­tali við BBC fyrir rúmri viku síðan að það stæði ekki til að slaka á tak­mörkunum og úti­lokaði ekki að tak­markanir yrðu hertar enn frekar. Fjölmargir sérfræðingar hafa varað við að næstu vikur verði þær erfiðustu í faraldrinum.