Þó nokkrir virðast hafa brotið á útgöngubanninu sem nú er í gildi í Bretlandi en að því er kemur fram í frétt Sky News um málið hafði lögregla í nægu að snúast yfir helgina.
Til að mynda stöðvaði lögregla samkvæmi í Hampshire á laugardag en þau fengu þau svör að fólkið sem stóð að samkvæminu væri ekki meðvitað um að heimsfaraldur geisaði þar sem þau „horfðu aldrei á fréttir.“
Í Suður-Wales þurfti lögregla að hafa afskipti af kynjaveislu á sunnudag og samkomu þar sem garðskála hafði verið breytt í bar á laugardag. Þá komu á fimmta tug manns saman í London á laugardagskvöldinu fyrir svokallaðan bílahitting þar sem fólk virti ekki samkomutakmarkanir.
Víða annars staðar voru reglur brotnar og voru fjölmargir sektaðir fyrir að brjóta reglur um samkomur en lögreglan í London sagði reglubrjótana vera sjálfselska og ábyrgðarlausa.
Erfiðar vikur fram undan
Faraldurinn er í mikilli uppsveiflu í Bretlandi en rúmlega 3,4 milljón tilfelli smits hafa nú verið staðfest þar í landi og hátt í 90 þúsund látist eftir að hafa smitast. Þá hefur nýtt afbrigði veirunnar valdið miklum skaða og meira að segja dreift sér til annarra landa.
Vegna þessa var ákveðið að útgöngubann myndi taka gildi þann 5. janúar síðastliðinn, í þriðja sinn sem það hefur verið gert frá upphafi faraldursins, og þar með er fólk hvatt til að halda sig heima nema brýna nauðsyn beri til annars.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, greindi frá því í samtali við BBC fyrir rúmri viku síðan að það stæði ekki til að slaka á takmörkunum og útilokaði ekki að takmarkanir yrðu hertar enn frekar. Fjölmargir sérfræðingar hafa varað við að næstu vikur verði þær erfiðustu í faraldrinum.
Forty nine people have been fined for breaching #Covid regulations after officers were called to a car meet in #Romford last night.
— Havering MPS. #HandsFaceSpace (@MPSHavering) January 17, 2021
East Area BCU Commander Stephen Clayman said: "There is no excuse for this sort of selfish behaviour".https://t.co/gp5R4UfQqg pic.twitter.com/Qsv8QmBJRZ