Í dag hófs níunda þjóðarátak Á allra vörum með kynningu og tónleikum í Hallgrímskirkju. Fjöldi tónlistarmanna styrkja átakið með því að spila á tónleikunum og er kirkjan þétt setin.

Í þetta skiptið nýtur „Eitt líf“ ágóðans af söfnuninni, en það eru samtök sem vinna óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins og hafa þau vakið mikla athygli.

Starfsemin var sett á fót eftir lát Einars Darra í maí 2018 og byggir á því að fræða börn og ungmenni, foreldra þeirra og kennara um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja en Einar Darri var aðeins 18 ára þegar hann lést af völdum of stórs lyfjaskammts.

Bubbi Morthens, Guðrún Gunnarsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Helgi Björnsson, Ragnheiður Gröndal, Stefán Hilmarsson og Lögreglukórinn koma fram á tónleikunum sem standa nú yfir.

Ellefu prósent framhaldsskólanema misnotað morfínskyld lyf

Gróa Ásgeirsdóttir ein af forsprökkum átaksins Á allra vörum segir í tilkynningu að lyfjafaraldur virðist geisa á Íslandi:

„Samkvæmt könnun sem fyrirtækið Rannsókn og greining gerði nýlega kom í ljós að 11% framhaldsskólanema, 18 ára og eldri höfðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina, sem er mjög hátt hlutfall að mati forsvarsmanna Eitt líf. Niðurstaða könnunar sem Lyfjastofnun gerði í mars 2018 á lyfjaneyslu háskólanema bendir til þess að 20% af háskólanemum noti örvandi lyf til þess að minnka svefnþörf og bæta námsárangur. Þá sýna rannsóknir fram á að tæplega 11% grunnskólanema í 10. bekk hafa tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina sem ekki voru ávísuð á þau og 1,5% hafa reynt örvandi lyf, eins og ritalín, sem heldur voru ekki ætluð þeim.”

„Undanfarin misseri hefur verið hávær umræða í þjóðfélaginu sem snýr að vímuefnum og neyslu barna og unglinga - börn sem prófa og oft ánetjast slíkum efnum allt, allt of ung. Það líður vart sá dagur að við heyrum ekki fréttir af börnum sem eru undir áhrifum lyfja og fíkniefna og finnst ekkert sjálfsagðara. Fjöldi barna hefur fallið frá af þessum sökum og eftir sitja sakbitnir foreldrar og spyrja sig „hvað hefði ég getað gert” eða „hvers vegna tók ég ekki eftir neinu”, segir Gróa..

“Líkt og áður vekjum við athygli á þessu mikilvæga máli því að selja Á allra vörum varasett, gloss og varalit saman í pakka og þannig náum við að fjármagna hið góða starf sem „Eitt líf“ sinnir til næstu ára með því að efla fræðslu um málefnið í öllum grunnskólum landsins. Við biðlum því til fyrirtækja í landinu að styrkja okkur með því að kaupa settið og gefa áfram á vinnustaðnum t.d. til starfsmanna og/eða viðskiptavina - og slá þannig tvær flugur í einu höggi - styrkja frábært málefni og gleðja fólkið.”

Settu átakið á fót þegar Gróa greindist með brjóstakrabbamein

Á allra vörum var stofnað árið 2008 af þeim Elísabetu Sveinsdóttur, Gróu Ásgeirsdóttur og Guðnýju Pálsdóttur.

Upphafið má rekja til þess þegar Gróa greindist með brjóstakrabbamein og í stað þess að leggja árar í bát fékk hún vinkonur sínar með sér í lið og saman hrintu þær af stað fyrsta þjóðarátakinu til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Hugmyndin hafi einfaldlega verið of góð til að halda ekki áfram og hafa þær stöllur staðið fyrir átta þjóðarátökum síðan, hverju öðru viðameira.

Hugmyndafræðin að baki Á allra vörum er að koma þörfum málefnum á framfæri á kraftmikinn og eftirtektarverðan hátt.

Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur