Eins saga – eitt skref, verk­efni Þjóð­kirkjunnar með að­komu Sam­takanna ‘78 er langt á veg komið. Sögum hin­segin fólks af and­stöðu og út­skúfun innan kirkjunnar hefur verið safnað í allan vetur og brátt verða þær birtar. Söfnun sagnanna reyndist afar til­finninga­þrungið verk­efni og hafði fólk þörf fyrir að láta sann­leikann koma í ljós.

„Oftast nær snúast sögurnar ekki um ein­staka presta heldur and­rúms­loft út­skúfunar innan kirkjunnar. Það eru mörg dæmi um að hin­segin fólk hafi skráð sig úr Þjóð­kirkjunni þrátt fyrir að hafa þörf fyrir trúar­líf,“ segir Bjarn­dís Helga Tómas­dóttir verk­efnis­stjóri sem ráðin var af sam­tökunum til þess að safna sögunum. Fólk hafi upp­lifað sig ó­vel­komið í kirkjunni.

Þjóð­kirkjan kynnti verk­efnið á Hin­segin dögum í ágúst sem þátt í því að græða sárin sem hún hafði veitt hin­segin fólki. Meðal annars með beinni and­stöðu við réttindi sam­kyn­hneigðra. Upp­haf­lega stóð til að safna sögunum skrif­lega. Fljót­lega þróaðist verk­efnið á þann hátt að safnað var sögum með munn­legum við­tölum því fólk var ekki endi­lega til­búið til skrifta.

„Þetta er til­finninga­þrungið efni og bæði sárt og erfitt fyrir marga. Fólk hefur þurft tíma til að velta því fyrir sér hvort það sé til­búið að deila reynslu sinni. En fólk hefur þörf til að láta heyra í sér, vitandi að á það verður hlustað,“ segir Bjarn­dís. Fólk er hins vegar ekki allt eins, hjá sumum braust til dæmis út reiði en þögn hjá öðrum.

Um­ræddar sögur spanna 20 til 30 ára tíma­bil, þær elstu frá árinu 1980 eða þar um kring og þær yngstu ná fram yfir alda­mótin. Sögurnar eru vitnis­burður um erfiða for­tíð, sumar nafn­lausar en aðrar undir nafni. Bjarn­dís segir mikil­vægt að þessu verk­efni hafi verið hrundið af stað því annars gæti þessi vitnis­burður glatast.

„Þegar enginn hlustar á þig fennir yfir þessar sögur,“ segir hún.

Hildur Hörpu­dóttir, sviðs­stjóri fræðslu­sviðs Biskups­stofu, segir að sögunum verði miðlað til fólks í kirkjum landsins með vísun í til­gang verk­efnisins, það er að læra af sögu mis­réttis innan kirkjunnar. „Við erum skoða núna nokkrar leiðir til að miðla þessum sögum á fal­legan, hrein­skilinn og á­hrifa­ríkan hátt,“ segir hún og verða þær leiðir kynntar von bráðar.

Auk þess verður haldið mál­þing um verk­efnið. Upp­haf­lega stóð til að halda það í apríl en vegna að­stæðna í sam­fé­laginu vegna far­aldursins þurfti Þjóð­kirkjan að fresta því. „Við bindum miklar vonir við þetta verk­efni og erum stolt af því,“ segir Hildur.