Friðrik Atli Guðmundsson, einn þeirra sem standa að söfnun loforða um hlutafé til að stofna nýtt almenningshlutafélög, sem hefði það hlutverk að leggja nýju lággjaldaflugfélagi fé, segir að vel hafi verið tekið í framtak hópsins. Hann vill þó ekki greina frá hve margir hafi heitið hlutafé til félagsins að svo stöddu.

„Það er vel tekið í þessa hugmynd og almenningur í landinu er bjartsýnn.“

Fréttablaðið hefur í dag fjallað um söfnunina, sem fer fram á heimasíðunni hluthafi.com. Þar gefst almenningi, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, færi á því að leggja til fé til stofnun nýs félags. Friðrik segir að framtakinu sé vel tekið. „Það er vel tekið í þessa hugmynd og almenningur í landinu er bjartsýnn,“ segir Friðrik í samtali við Fréttablaðið.

Fréttablaðið greindi fyrst frá vefsíðunni í morgun, og í kjölfar sendi blaðið fyrirspurn á þartilgert netfang þar sem m.a. var spurt hver stæði fyrir söfnuninni, hve mikið hefði safnast og hvort að söfnunin væri eitthvað tengd fyrrverandi stjórnendum WOW Air.

Engin svör bárust frá þeim sem sjá um síðuna, en nú hefur birst á vefsíðunni upplýsingar þarað lútandi. „Hollvinir almennrar samkeppni. Við erum einstaklingar, sem sjá að rekstur lággjaldaflugfélags í eigu íslendinga er raunhæfur kostur og viljum að landsmenn taki sig saman til að endurreisa Wow air eða stofna nýtt lággjaldafélag, sem er eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar í dag,“ segir á vefsíðunni.

„Þetta byrjaði bara sem blaður á kaffistofu og æxlaðist svo í þetta.“

Síðan hefur verið til umfjöllunar í dag, en Ástþór Magnússon, athafnamaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur lýst yfir áhuga á að koma að rekstri nýs lággjaldaflugfélag, hvort sem það verði WOW Air upprisið eða algjörlega nýtt félag. Skúli Mogensen greindi Fréttablaðinu frá því að hann hefði engin tengsl við söfnunina, en að hann fylgdist með af áhuga.

Friðrik segist ekki geta tjáð sig um hve margir hafa tekið þátt í söfnuninni, enda hafi hann ekki upplýsingarnar á reiðu. Aðspurður svarar Friðrik að hugmyndin að söfnuninni hafi komið upp á kaffistofuspjalli. „Þetta byrjaði bara sem blaður á kaffistofu og æxlaðist svo í þetta,“ segir Friðrik. „Við erum að safna loforðum um hlutafé frá einstaklingum til þess að stofna nýtt almenningshlutafélag, sem myndi kynna sér rekstarmódel nýs lággjaldaflugfélags og fjárfesta í því,“ segir Friðrik.

Hann segir að ef ekkert verði af nýju flugfélagi verði ekki farið í neinar fjárfestingar og loforð um hlutafé verið felld niður. „Við erum bara almennir borgarar eins og þú og höfum áhuga á samkeppni á flugmarkaði. Það er aðalmálið,“ segir Friðrik.

Friðrik stendur þó ekki einn að framtakinu. „Við erum ekki alveg jafn mörgu og við þyrftum að vera til að svara fyrirspurnum, allt er þetta mikil vinna,“ segir Friðrik að lokum.

Á vefsíðunni kemur jafnframt fram að hún er kostuð félaginu Sólhús ehf. Það félag er samkvæmt fyrirtækjaskrá hugsað til byggingar og útleigu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.