Þórður Sigurðsson, slökkviliðsmaður í Borgarbyggð, segir að samkvæmt reglugerð þurfi slökkviliðsstöðvar að hafa sánuklefa enda sé best að svitna út eiturefnunum sem verða eftir í húðinni eftir reykköfun. Hann er þakklátur fyrir stuðning bæjarbúa sem styrktu söfnun fyrir búnaðnum.

„Við erum hlutastarfandi slökkvilið þó við þurfum að uppfulla sömu kröfur og atvinnumenn þó að sem betur fer sé ekki jafn mikið að gera hjá okkur. Þetta verður félagslega gott fyrir okkur því slökkviliðsmenn eru að jafnaði iðnaðarmenn svo við setjum þetta allt upp sjálfir. Notum þetta svo eftir æfingar þannig maður fari aldrei aftur óhreinn heim,“ segir Þórður.

Slökkviliðsmenn í Borgarbyggð hafa notast við gufubaðið í íþróttamiðstöðinni en Þórður segir vont að gera samborgurnum það að koma hálf eitraður inn í gufuna. „Við ákváðum að taka málin í okkar hendur, félag slökkviliðsmanna í Borgarbyggð, og hrinda af stað söfnun fyrir þessu sem var vel tekin. Við erum bæði auðmjúkir og þakklátir fyrir okkar samborgurum fyrir aðstoðina.
Við fórum í tvö stór útköll í vor og í kjölfarið fórum við af stað. Nú er bara í allt í gangi og við erum að vinna í að koma þessari aðstöðu upp.“

Hann segir að þó gallarnir sem slökkviliðsmenn séu í séu góðir fari reykurinn og eitrið i gegnum hann. „Rannsóknir sýna að þetta eru mjög krabbameinsvaldandi efni sem eru í reiknum. Þekktasta aðferðin er að fara í gufu eða sánu þar sem maður svitnar óþverranum úr. Ég hef lent í því að fara í húsbruna og reykkafa í dágóða stund og á þriðja degi var ég ennþá með brunalykt á mér. Þessi eiturefni, þó við séum í góðum göllum, smígur í gegn og þetta verður því kærkomið,“ segir Þórður.