Hjúkrunar­heimili Fjarða­byggðar sendu í gær á­kall til fyrir­tækja, fé­laga­sam­taka og ein­stak­linga á svæðinu til að styðja heimilin við kaup á súr­efnis­vélum svo að þau gætu verið betur í stakk búin til að takast á við út­breiðslu CO­VID-19. Á­kallið var birt á Face­book síðunni Fjarða­byggð – Aug­lýsingar og Við­burðir og leyndu við­brögðin sér ekki.

„Í­búar hjúkrunar­heimilanna eru í miklum á­hættu­hópi gagn­vart Co­vid19, bæði vegna aldurs en einnig eru flestir með undir­liggjandi sjúk­dóma sem gera þá út­settari fyrir að veikjast al­var­lega,“ sagði Ragnar Sigurðs­son, fram­kvæmda­stjóri Hjúkrunar­heimila Fjarða­byggðar í færslunni og bætti við að stuðningur sam­fé­lagsins hafi reynst ó­metan­legur. „Ykkar stuðningur gæti reynst lífs­nauð­syn­legur og því leitum við til ykkar eftir að­stoð við kaup á þessum vélum.“

Sam­kvæmt nýjustu upp­lýsingum almannavarna eru nú 552 ein­staklingar í ein­angrun hér á landi, 36 ein­stak­lingum hefur batnað og 6.816 eru í sótt­kví. Þá eru fjór­tán ein­staklingar á sjúkra­húsi vegna veirunnar.

Fjölmargir boðið fram aðstoð

Fréttamiðillinn Austur­frétt hefur það eftir Ragnari að það hafi tekið innan við 30 mínútur að safna fyrir sex súr­efnis­vélum. Hver vél kostar um 177 þúsund krónur og því um að ræða rúm­lega milljón sem tókst að safna á þessum skamma tíma. „Við erum klökk yfir öllum stuðningnum sem við fengum í kjöl­far þess að við sendum út á­kallið til fyrir­tækja og fé­laga­sam­taka,“ sagði Ragnar í sam­tali við miðilinn.

Ragnar Sigurðs­son, fram­kvæmda­stjóri Hjúkrunar­heimila Fjarða­byggðar.
Mynd/Fjarðabyggð

Það voru fyrir­tækin Fisk­eldi Aust­fjarða, Tandra­berg, Tandra­bretti, og Laxar fisk­eldi sem fjár­mögnuðu kaupin en fjöl­mörg önnur fyrir­tæki, fé­laga­sam­tök og ein­staklingar hafa lýst yfir vilja til að að­stoða heimilin. Að sögn Ragnars væri hægt að nýta frekara fjár­magn til að undir­búa heimilin enn frekar en vonast er til að það komi ekki til þess.

„Þetta eru um­fangs­miklar að­gerðir og undir­búningur. Öllu verk­lagi hefur verið breytt sem felur í sér mikið álag á deildunum. Þá hefur heim­sóknar­bannið heil­mikið á­hrif á íbúa, að­stand­endur, starfs­fólk og allt fé­lags­starf en allir hafa sýnt að­gerðum okkar mikinn skilning,“ sagði Ragnar en heimilin starfa eftir við­bragðs­á­ætlun al­manna­varna.