Öku­maður sendi­bíls sem lést eftir að bíll hans rann út af veginum í Hest­firði í júní fyrir tveimur árum, sofnaði senni­lega undir stýri. Þetta kemur fram í skýrslu rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa um slysið sem birt var í dag.

Tveir voru í bílnum þegar slysið varð þann 13. júní 2018. Bíllinn lenti á stóru grjóti þegar hann fór út af veginum. Grjótið hafði fallið ofan úr hlíð fyrir ofan veginn, ofan í nær­liggjandi vatns­rás. Til hafði staðið að fjar­læga grjótið en tafir urðu á því vegna vot­viðris vikurnar á undan.

Í skýrslunni kemur fram að veður þennan dag hafi verið gott, þurrt hafi verið, bjart og nánast logn. Sjá mátti för eftir bílinn í vegöxlinni vinstra megin. Þau sýndu að bílnum hafði verið ekið á öfugan vegar­helming og út af veginum. Vinstra fram­horn bílsins lenti á grjótinu og kastaðist aftur­hluti bílsins aftur upp á veginn, þar sem hnan sötðvaðist.

Í skýrslunni lýsir ein­stak­lingur því hvernig hann varð vitni að slysinu úr bak­sýnis­spegli síns bíls. Bíllinn hafi sveigt lítil­lega til vinstri og ekki hafi verið að sjá að reynt hafi verið að sveigja henni aftur inn á veginn en um­merki á vett­vangi styðja þá frá­sögn.

Rann­sóknar­nefndin beinir því til Vega­gerðarinnar hvort unnt sé að skoða hvort ekki sé hægt að tak­marka frekar þá hættu sem stafi af reglu­legu grjót­hruni úr hlíðinni fyrir ofan veginn. Grjótið hafi verið innan öryggis­svæðis vegarins og mikil­vægt sé að búið sé að fjar­læga hættur úr nánasta um­hverfi vega.