Soffía Stein­gríms­dóttir, sem starfað hefur sem hjúkrunar­fræðingur á bráða­mót­töku Land­spítalans síðast­liðin sex ár, viður­kennir að hún sé lúin.

Soffía skrifaði færslu á Face­book í gær­kvöldi sem vakið hefur tals­verða at­hygli og veitti hún Frétta­blaðinu góð­fús­legt leyfi til að birta efni hennar.

„Já, ég er ,,lúin”. Hjúkrunar­fræðingur á bráða­mót­tökunni síðast­liðin 6 ár. Á­lagið hefur vaxið. Kannski vegna öldrunar þjóðar, fjölgunar ferða­manna eða af ein­hverjum öðrum á­stæðum? Og svo má telja til heims­far­aldur,“ segir hún í færslu sinni og nefnir einnig að hjarta­gátt hafi verið flutt yfir á bráða­mót­tökuna.

Hún segir að staðan sé í raun þannig að í Reykja­vík – lítilli borg á heims­vísu – sé ekki hægt að sinna fólki á bráða­mót­tökunni al­menni­lega.

„Og kæru landar, alls ekki fara í geð­rof eða fá sjálfs­vígs­hugsanir efir klukkan 17 því þá er búið að loka geð­deild. Allir sem eru í bráðum vanda vegna á­fengis og lyfja koma til okkar… allir sem eru beittir of­beldi og vilja að­stoð koma til okkar. Og við vísum engum frá sem þarf á að­stoð að halda.“

Í pistli sínum spyr Soffía hvernig starfs­fólk eigi að hugsa um allt þetta fólk við þessar að­stæður.

„Sjúk­lingar liggja á glugga­lausum her­bergjum ef þeir eru svo heppnir að fá her­bergi, annars liggja þeir á göngunum. Dynjandi bjallan hringir lát­laust sem við starfs­fólk höfum ekki undan að svara,“ segir Soffía og spyr hvort þetta sé eðli­legt á­stand.

„Ég hef unnið í milljóna­borgum á bráða­mót­töku við dá­lítið aðrar að­stæður þar sem við vorum ekki að reka 1-2 legu­deildir til við­bótar. Þar var hægt að sinna starfi sínu. Í smá­borginni Reykja­vík er ekki hægt að sinna fólki á bráða­mót­töku svo vel sé.“

Í lok pistilsins segist Soffía ekki vita hvað þurfi að gerast svo ein­hver heyri og skilji það sem starfs­fólk er að segja. „En já …það má kalla það svo að við séum „lúin“,“ segir hún að lokum.

Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítalans, gerði mál­efni bráða­mót­tökunnar að um­tals­efni í pistli á vef Land­spítalans þann 1. októ­ber síðast­liðinn og sagði að enn eina ferðina kæmi neyðar­kall frá bráða­mót­tökunni.

Í um­fjöllun RÚV um miðjan þennan mánuð kom fram að hjúkrunar­fræðingar hefðu sent frá sér neyðar­kall út af öryggi sjúk­linga og yfir­keyrðu starfs­fólki. Ekki væri ó­al­gengt að 40 sjúk­lingar liggi á göngum og kaffi­stofum starfs­fólk. Við þessu var brugðist með því að bæta við allt að 30 legu­rýmum. Ljóst má vera, ef marka má skrif Soffíu, að betur má ef duga skal.