Flestir áttu von á því að miklir söluörðugleikar myndu hrjá Volkswagen í kjölfar dísilvélahneykslis þess fyrir um tveimur árum, en hneykslið virtist bíta sáralítið í stöðuga sölu Volkswagen bíla. Sú þróun hélt sannarlega áfram á fyrsta ársfjórðungi þessa árs því Volkswagen setti sölumet og seldi 5,9% fleiri bíla en á sama tíma árið áður. Alls seldi Volkswagen 1,53 milljónir bíla. Best gekk að selja á stærsta bílamarkaði Volkswagen og fleiri bílaframleiðenda, þ.e. í Kína, þar sem söluaukningin nam 8,6%. Fín söluaukning varð einnig í Bandaríkjunum en 0,8% söluminnkun var á heimamarkaðnum í Þýskalandi. 

Í nýliðnum mars gekk Volkswagen frábærlega við sölu bíla sinna og náði 584.700 bíla sölu og ef þessi velgengni verður stigvaxandi á árinu má búast við algeru metári hjá Volkswagen. Í fyrra átti Volkswagen Group, móðurfyrirtæki Volkswagen, metár í sölu og skilaði mesta hagnaði sem fyrirtækið hefur náð á einu ári og næstum tvöfaldaði fyrra eigið met. Undir Volkswagen Group falla meðal annars bílamerkin, Audi, Porsche, Skoda, Seat, Lamborghini, Bugatti og Bentley, auk Volkswagen. Volkswagen Group er stærsti bílaframleiðandi heims og náði þeim titli nýlega frá Toyota.