Bandaríkin

Sögulegur fellibylur gekk á land í gær

Michael veldur miklu tjóni í Flórída. Sjávarflóð gætu náð allt að fjögurra metra dýpt. Mikið tjón á eignum og innviðum. Stormurinn sagður sá öflugasti sem gengið hefur á land í Bandaríkjunum í rúm 25 ár og sá sterkasti á þessu tiltekna svæði í skráðri sögu.

Mike Lindsey stendur í fyrrverandi dyragætt antíkbúðar sinnar í smáborginni Panama City. Nordicphotos/Getty

Michael gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gær sem fjórða stigs fellibylur. Einungis örfáum metrum á sekúndu munaði að vindhraðinn væri svo mikill að flokka mætti fellibylinn á fimmta stigi. Vindhraðinn mældist tæpir sjötíu metrar á sekúndu þegar stormurinn gekk á land, skammt austan við bæinn Mexico Beach.

Engar fregnir höfðu borist af manntjóni vegna stormsins þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær. Hins vegar hafði Rick Scott ríkisstjóri lýst yfir áhyggjum sínum af þeim sem ekki yfirgáfu svæðið og sagðist óttast um líf þeirra.

Alls var á fjórða hundrað þúsunda gert að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna. Scott greindi jafnframt frá því að björgunarstarfsfólk hefði verið í viðbragðsstöðu.

Myndir og myndbönd sem birtust frá svæðinu þar sem Michael reið yfir í gær sýndu mikla eyðileggingu. Greint var frá rafmagnsleysi víða og þykir víst að tjón á eignum og innviðum verði mikið.

Þetta er öflugasti stormur, sé miðað við vindhraða, sem hefur gengið á land í Bandaríkjunum frá því að Andrew skók Flórída árið 1992. Sömuleiðis þykir sögulega merkilegt að þetta sé í fyrsta skipti í skráðri sögu sem fjórða stigs fellibylur gengur á land í hinu svokallaða pönnuskafti Flórída, ræmunni sem gengur vestur af Flórídaskaga sjálfum og að borginni Pensacola.

Fjórða stigs fellibyljir eru ekki algengir í Bandaríkjunum. Samkvæmt umfjöllun The Weather Channel voru síðustu slíku fellibyljir Harvey og Irma á síðasta ári en síðan þarf að fara meira en áratug aftur í tímann til að finna dæmi um að svo öflugir stormar hafi gengið á land.

Veðurfræðingur The Weather Channel sagði það afar merkilegt við Michael að stormurinn hafi í raun aldrei veikst frá því kerfið myndaðist. Hann hafi raunar náð hápunkti sínum einmitt þegar hann gekk á land. Flestir fellibyljir á Mexíkóflóa nái hápunkti sínum hins vegar yfir flóanum.

Helsta hættan sem fylgdi fellibylnum Florence, sem gekk á land í Norður-Karólínu í september, stafaði af mikilli úrkomu.

Hins vegar eru mestar áhyggjur af miklum vindhraða Michaels og sérstaklega þeim sjávarflóðum sem stormurinn veldur. Samkvæmt bandarískum spám stefndi í gær í að slík flóð gætu náð rúmlega fjögurra metra dýpi, til að mynda við bækistöðvar flughersins í Tyndall.

Bandaríska fellibyljamiðstöðin (NHC) spáir því að næst muni Michael halda áfram í norðaustur yfir Georgíu og Karólínuríkin sem hitabeltisstormur. Þaðan mun stormurinn síðan sveigja út á Atlantshaf í átt að Bretlandseyjum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Bandaríkin

Óhress með samkomulagið

Bandaríkin

Sam­þykkja 1.4 milljarða í landa­mæra­girðingu

Bandaríkin

Trump og Kim hittast í Víetnam innan fárra vikna

Auglýsing

Nýjast

​For­maður ÍKSA lofaði upp í ermina á sér og harmar það

Netanja­hú hættir sem utan­ríkis­ráð­herra

Sakar Bryn­dísi um hroka í garð verka­lýðs­for­ystunnar

Bryn­dís segir femín­ista hata sig: „Hvar er ég stödd?“

Opnar sig um HIV: „Tón­listin eins og græðis­­myrsl“

Ratclif­fe vinnur að því að koma milljörðum punda frá Bret­landi

Auglýsing