Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að ný tegund af netglæp hafi litið dagsins ljós á Íslandi en þeim hafa borist einhver fjöldi tilkynninga um að fólk fái tölvupóst, eða svikapóst, þar sem það er látið líta út fyrir að viðtakandi póstsins tengist rannsókn Leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, á barnaníðsefni.

Fram kemur í tilkynningu lögreglu að samkvæmt því sé pósturinn „frekar ógeðfelldur“.

Lögreglan tekur þó skýrt fram í tilkynningu sinni að fólk eigi ekki að hafa áhyggjur. Um sé að ræða fjölpóst, honum fylgi ekki óværa og að mikilvægt sé að fólk aðhafist ekki fái það slíkan póst. Nema auðvitað að láta lögregluna vita. Bæði er hægt að gera það á Facebook og með því að senda þeim póst.

Sent til að vekja hræðslu

Í tilkynningu lögreglunnar segir enn fremur að pósturinn sé sendur í þeim tilgangi að vekja hræðslu og þannig voni þeir sem sendi póstinn að fólk greiði þeim einhverja upphæð í staðinn. Tekið er fram ekkert sé hæft í efni póstsins og ef að vel er gáð má sjá að pósturinn er uppruninn í Gabon, Mið-Afríku Lýðveldinu, Malí eða öðru ríki og hefur ekkert með CIA að gera.

Að því loknu segir lögreglan að þótt það sé óþægilegt að fá slíka pósta þá vilji þau biðja fólk að halda ró sinni.

Ef fólk er að fá slíka pósta þá er það beðið að senda póst á [email protected] eða á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningu lögreglunnar má sjá hér að neðan.