PlayStation-4 leikjatölvur eru uppseldar í ELKO eftir að hafa dalað í sölu mánuðina á undan, er þetta líklega í fyrsta skipti sem tölvan hefur selst upp.

„Neyslumunstrið hefur heldur betur breyst. Viðskiptavinir eru búnir að færa sig yfir í flokka sem tengjast samkomubanninu,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, innkaupastjóri ELKO. Mikið hefur selst af búnaði ætluðum fjarfundum.

Þá hafa spjaldtölvur selst í miklum mæli. Eru þær helst ætlaðar fólki sem er einangraðra í dag en áður og vill nota þær til að heyra í fjölskyldu og vinum.

„Afþreying hefur svo tekið mikið stökk. Það sést best í PlayStation 4 tölvunni sem hefur verið að dala í sölu eftir að ný PlayStation 5 var kynnt til leiks í lok þess árs. PlayStation 4 leikjatölvurnar eru nú að seljast umtalsvert betur og það var algerlega óviðbúið,“ segir Óttar.

„Það sem hefur komið mest á óvart er sala á SodaStream-hylkjum. Þau er nú söluhæsta varan hjá okkur í mars og augljóst að landinn ætlar að eiga sína kolsýru fyrir gosvélarnar næstu vikurnar,“ segir Óttar. Sending af hylkjum og PlayStation-tölvum kemur eftir páska. Enn sem komið er er vöruflæði erlendis og innanlands í góðum farvegi og sér ekki fyrir að það breytist.

„Svo eru eldhústæki tengd fjölskyldunni vinsæl, má þar nefna hrærivélar, vöfflujárn og önnur svipuð tæki sem fjölskyldan getur dundað sér saman með í eldhúsinu við að baka eða búa til kræsingar í kaffið.“