Anna Margrét Ólafsdóttir er leikskólastjóri á Nóaborg í Reykjavík og situr í starfshópnum sem skóla- og frístundaráð skipaði og hefur fundað síðan í október um betra starfsumhverfi leikskólanna. „Leikskólastjórar og starfsfólk í leikskólum er búið að kalla eftir þessu mjög lengi í sambandi við bættar starfsaðstæður í leikskólum. Þessi starfshópur var skipaður í kjölfarið af þessu ákalli leikskólastjóra meðal annars um þetta,“ segir Anna Margrét í samtali við Fréttablaðið.

Í hópnum eru þrír reyndir leikskólastjórar og einn reyndur leikskólakennari. „Leikskólastjórar sem eru með leikskóla opna til kl. 17 eru farnir að finna fyrir því að fá ekki hæft starfsfólk til starfa vegna opnunartímans og starfsfólkið ræður sig frekar í leikskóla sem opnir eru til kl. 16.30. Þetta skapar ójafnræði á milli leikskóla sem er óásættanlegt,“ segir Anna Margrét meðal annars í pistli sem hún birtir á Facebook í kvöld.

„Við erum búin að funda stíft og þetta eru fyrstu tillögurnar sem við komum með en við munum halda áfram að rýna í hvað hægt er að gera til að skapa bættar starfsaðstæður.“

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, oddviti, og Hildur Björnsdóttir hafa gagnrýnt tillöguna harðlega.

„Við munum leggjast gegn þessu á öllum stigum. Meirihlutinn hefur misst jarðsamband með því að velja að spara með þessum hætti,“ segir Eyþór sem segir að breytingarnar komi til með að bitna helst á konum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, deilir einnig skoðun sinni á tillögunni á Facebook síðu sinni í dag um að hún skerði rétt foreldra til að ráða eigin lífi.

Erfitt að fá starfsfólk og lítil eftirspurn eftir lengri opnunartíma

Um mönnun leikskólanna sem opnir eru í 9 og hálfan tíma segir Anna Margrét:

„Annars vegar fæst ekki starfsfólk og hins vegar er ekki eftirspurn eftir þessum tíma hjá foreldrum." Hún segir að margir foreldrar sem greiði fyrir síðasta hálftímann fram til 17 nýti hann ekki. „Gagnrýnisraddirnar segja að þetta sé nánast árás á einstæða foreldra og láglaunafólk. Staðreyndin er hins vegar sú að það er almennt ekki þessi hópur sem helst er að kaupa tímann á milli 16.30 og 17.

Það sem þarf líka pínulítið að átta sig á er að það er í nú í umræðunni talað um hvort ekki sé hægt að manna skilastöðuna með ungu fólki, en börnin eru á ábyrgð leikskólanna frá því að þau koma og þangað til þau eru sótt. Það er ekki hægt að skilja eftir hóp barna hjá nokkrum 18 ára krökkum. Það verður að vera reyndur starfsmaður sem þekkir börnin. Ég lít ekki á það sem lausn.

Að sögn Önnu Margrétar eru sem stendur um 17 eða 18 leikskólar í Reykjavík sem loka 16:30 í Reykjavík.

„Ég bið fólk að anda rólega, kynna sér rökin fyrir þessum breytingum með opnum huga í stað þess að fella sleggjudóma og fara hamförum á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þetta snýst ekki um pólitík, kvenfrelsi, jafnrétti kynjanna og að konur séu aftur reknar inn á heimilin svo ég nefni eitthvað af því sem hrópað hefur verið á torgum. Þetta snýst um það dýrmætasta sem við eigum, börnin okkar og það starfsumhverfi sem þau dvelja í daglega, lengur en foreldrar þeirra eru í vinnu.

Hér má lesa pistil Önnu Margrétar Ólafsdóttur í heild: