Helga Sæunn Árnadóttir, móðir Kamillu Ívarsdóttur, 18 ára stúlku sem varð fyrir stórfelldri líkamsárás af hálfu fyrrum kærasta síns í fyrra, segist óttast um dóttur sína sem er snúin aftur til árásarmanns síns.
„Hann er með eitthvað hreðjatak á dóttur minni og nú hefur hún ekki komið heim síðan á fimmtudaginn,“ segir Helga í samtali við Fréttablaðið. „Hvort það er af fúsum og frjálsum vilja veit ég ekki þar sem hún hefur ekki svarað mér frá því ég komst að því að hann væri með hana.“
Mæðgurnar ræddu um stórfelldar árásir sem Kamilla hafði orðið fyrir í Kastljós viðtali sem vakti mikla athygli síðastliðinn september. Þar sagðist Kamilla hafa viljað slíta samskiptum við fyrrum kærasta sinn þar sem hún vildi ekki að líf hennar myndi enda fyrir tvítugt.
Nálgunarbann gagnslaust
Kamilla er með nálgunarbann á umræddan mann sem rennur út næsta fimmtudag. „Það er bara ekkert tekið mark á nálgunarbanni, það virkar ekki neitt.“ Helga bendir á að manninum hafi tekist að brjóta gegn nálgunarbanni 122 sinnum á meðan hann sat í fangelsi fyrir að hafa ráðist á hana.
Hvert brot gegn nálgunarbanni getur varðað allt að tveggja ára fangelsisvist. Helga veltir fyrir sér hversu mörg ár maðurinn þyrfti að sitja inni yrði hann dæmdur fyrir brotin. „Ef þú stelur hangikjöti út í búð er tekið harðar á því en þegar brotið er gegn nálgunarbanni sem sett var á eftir að reynt var að ráða niðurlögum einhvers.“ Engin sanngirni sé í slíku kerfi.
Hringdi ítrekað úr fangelsinu
Maðurinn hefur þegar lokið afplánum fyrir dóm sem hann fékk fyrir hrottafengna árás gegn Kamillu, en hún vaknaði á spítala, þríbrotin í andliti með augntóftargólfsbrot báðum megin, nefbeinsbrot, opið sár á höfði og maráverka víðs vegar um líkama.
„Hann sat aðeins inni í fimm mánuði, frá október til mars, fyrir að hafa nánast murkað lífið úr dóttur minni. Á meðan var hann í stöðugum samskiptum við hana,“ ítrekar Helga. Eftir að maðurinn var látinn laus leið ekki langur tími þar til hann náði Kamillu aftur á sitt band að sögn Helgu.
„Hann hefur komist upp með það frá byrjun að geta hitt hana í gegnum vini sína sem sækja hana og koma með hana til hans.“ Þetta eigi sér allt stað þrátt fyrir nálgunarbann.

Sagan mun endurtaka sig
„Það er önnur kæra sem liggur uppi á hillu hjá lögreglu tilbúin til birtingar.“ Sú kæra er fyrir árásir sem áttu sér stað milli 29. mars til 29. maí, aðeins örfáum vikum eftir að maðurinn losnaði úr fangelsi. „Þá hótaði hann henni og sagði að ef hún færi aftur heim myndi hann skera okkur öll á háls.“
Helga kveðst ekki skilja hvers vegna það sé ekki forgangsmál hjá lögreglu að birta kæruna. „Maðurinn er stórhættulegur og ég er viss um að sagan muni endurtaka sig með mun hryllilegri afleiðingum sem engin mun geta jafnað sig á.“
„Maðurinn er stórhættulegur og ég er viss um að sagan muni endurtaka sig með mun hryllilegri afleiðingum."
Fjölskyldan í sárum
Frá því í síðustu viku hefur Helga verið í miklum samskiptum við lögreglu vegna málsins. „Lögreglan er búin að fara tvisvar sinnum á heimili hans en þau voru ekki þar í þau skipti,“ segir Helga sem telur sig hafa gert mistök með því að segja manninum að hún vissi hvar hann ætti heima.
„Réttur gerenda er svo gríðarlegur að það eru allir vanmáttugir í kringum þá.“ Fjölskyldan þjáist verulega vitandi af Kamillu heima hjá manninum. „Það er enginn sársauki verri en að horfa upp á barnið sitt í ofbeldissambandi.“ Það sé hins vegar lítið hægt að gera þar sem Kamilla sé orðin 18 ára.
Helga segist ekki vita lengi dóttir hennar hefur verið í samvistum við manninn en hún hafi sjálf ekki komist að þau væru í samskiptum fyrr en fyrir um tveimur vikum. „Hann hafði verið fjarri huga mínum í marga mánuði og ég hélt að við værum endanlega laus við hann.“
Nauðsynlegt sé að framfylgja nálgunarbanni og koma í veg fyrir að hægt sé að brjóta ítrekað gegn því án afleiðinga að mati Helgu. „Hann hefur komist upp með þetta áður svo það er ekkert til að stoppa hann núna, nema að færa hann aftur í fangelsi.“
Fréttin var uppfærð klukkan 16:42
Kamilla Ívarsdóttir hafði sambandið samband við Fréttablaðið og segir móður sína fara með rangt mál. Hún kveðst ekki dvelja hjá árásarmanni sínum heldur hjá vinkonu.