Kinan Kadoni, sem búsettur hefur verið hér á landi um nokkurra ára skeið, lenti í miður skemmtilegri reynslu í verslun við Ásvallagötu í gær að loknum vinnudegi.

Í færslu á Facebook greinir hann frá því að í versluninni hafi verið maður, viðskiptavinur sennilega á fertugsaldri, sem hafi horft ákveðnum augum á Kinan þegar hann gekk inn. Maðurinn gekk svo að honum og spurði Kinan hvort hann væri múslimi.

Kinan segist hafa svarað spurningunni játandi og gengið svo í burtu frá manninum til að forðast frekari samskipti við hann, enda maðurinn haft óþægilega nærveru og tilgangurinn með samskiptunum augljóslega ekki verið vinalegur. Þar með er ekki öll sagan sögð.

„Hann elti mig og sýndi mér húðflúr sem hann var með á neðri vörinni. Ég sá ekki betur en að þetta væri hakakrossinn,“ segir Kinan. Maðurinn hafi svo lyft handleggnum líkt og hann væri að heilsa að hætti nasista. Þegar Kinan gekk út úr versluninni segir hann að maðurinn hafi elt hann og gert svo sömu bendingu með handleggnum meðan hann gekk burt.

Kinan flúði heimili sitt í Sýr­landi fyrir rúmum tíu árum síðan, hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2018. Í nýlegu viðtali við Fréttablaðið fór hann yfir stöðu mála í Sýrlandi.

Snortinn yfir viðbrögðum lögreglu

„Ég hringdi strax í lögregluna um leið og ég kom út úr versluninni. Lögreglan bað mig að hinkra þar til hún kæmi,“ segir hann. Skömmu síðar komu tveir lögregluþjónar.

Kinan segir í samtali við Fréttablaðið að hann sé snortinn af viðbrögðum lögreglu. „Þeir voru mjög hjálpsamir og góðir. Þeir spurðu hvernig ég hefði það, hvort það væri í lagi með mig. Þeir tóku svo niður allar upplýsingar. Þeir ætla svo að boða mig niður á lögreglustöð til að gefa formlega skýrslu.“

Kinan hefur lent í svipuðum aðstæðum áður hér á landi. „Einu sinni var það kona sem taldi svarta skeggið mitt ógnandi.“