Þrír kafarar Landhelgisgæslunnar af varðskipinu Þór hafa lokið við að þétta öll öndunarop togarans sem sökk á Stöðvarfirði. Búið er að dæla um þrjú hundruð lítrum af olíu upp úr sjónum.

„Við náðum að fanga megnið af olíunni sem streymdi upp úr skipinu,“ segir Guð­mundur Helgi Sig­fús­son, slökkvi­liðs­stjóri í Fjarða­byggð, í samtali við Fréttablaðið.

Sjó­menn tóku eftir því um klukkan sjö í morgun að togarinn Drangur ÁR-307 hallaði í­skyggi­lega við höfnina og skömmu síðar var hann sokkinn. Áhöfnin var í helgarfríi og var enginn um borð.

„Skipið sökk tiltölulega hratt að aftan og marar aðeins að framan en liggur nánast á botni,“ segir Guð­mundur Helgi.

Greinilegur leki var frá tveimur opnum aftast við olíutankana sem kafarar Landhelgisgæslunnar eru búnir að þétta
Mynd: Landhelgisgæslan

30 þúsund lítrar af olíu í togaranum

Fljótlega eftir að skipið sökk fór olía að leka úr tveimur opnum aftast við olíutankana. Brugðist var hratt við; slökkvilið úr nærliggjandi bæjum mættu á staðinn og léttbátur með áhöfn frá Þór hélt af stað til Stöðvarfjarðar og varðskipið á eftir.

Fjölmennar að­gerðir slökkvi­liðs, björgunar­sveita og hafnarstarfsmanna hafa staðið yfir í allan dag. Mengunarvarnagirðingar frá Reyðarfirði voru settar út og er búið að dæla um þrjú hundruð lítrum upp úr sjónum. Um 30 þúsund lítrar eru í togaranum sjálfum enda er nýbúið að fylla á hann til að fara á sjó á morgun.

Greinilegur leki var frá tveimur opnum aftast við olíutankana sem nú er búið að þétta. Búið er að tryggja skipið að aftan svo það reki ekki frá og verður varðskipið Þór áfram til taks á staðnum.

Mengunarvarnargirðingarnar. Varðskipið Þór í bakgrunni.
Mynd: Landhelgisgæslan

Tryggingafélag og eigendur skipsins mæta á svæðið í kvöld ásamt skipstjóra og verður þá tekin ákvörðun um hvernig skipið verði fjarlægt úr höfninni.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá aðgerðum.