Örlítinn snjó mátti sjá víða á götum Reykjavíkurborgar í kvöld, borgarbúum eflaust til mismikillar gleði. Um er að ræða fyrsta snjóinn sem fellur á höfuðborgarsvæðinu í einhverja mánuði.

Fyrsti vetrardagurinn er enn ekki formlega genginn í garð. Hann er næsta laugardag, 26. október. Fyrsti vetrardagurinn er alltaf fyrsti laugardagur að lokinni 26. viku sumars og var fyrsti dagur hins fyrsta vetrarmánaðar í gamla norræna tímatalinu, gormánaðar.

Samkvæmt veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands kemur snjófallið ekki mikið á óvart. Þegar það er alskýjað eins og var í dag og hitinn undir frostmarki þá geti alltaf fallið einhver örlítil úrkoma.