Óskað var eftir aðstoð lögreglu í gær eftir að töluvert magn af snjó féll ofan af húsþaki og lenti á vegfarendum sem gengu þar undir. Að sögn lögreglu voru tveir vegfarendur með minni háttar áverka í andliti en ekki var talin ástæða til að flytja þá á bráðamóttöku til skoðunar.
Lögregla handtók svo ofurölvi einstakling á veitingastað í hverfi 105. Maðurinn er sagður hafa verið með truflandi áhrif á starfsemi veitingastaðarins og var hann vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum. Ekki reyndist unnt að tala við hann sökum ölvunar.
Þá var tilkynnt um rán í verslun í miðborginni í gær. Einn var handtekinn á vettvangi og er hann vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Frekari upplýsingar koma ekki fram í skeyti lögreglu.
Þessu til viðbótar voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.