Jón Þór Tómasson biður landsmenn um að sýna snjómokstursmönnum tillitssemi á komandi mánuðum meðan þeir sinna störfum í að rýma vegi.

„Við erum um 200 manns um land allt sem störfum við þetta með beinum eða óbeinum hætti. Nú eru bílarnir okkar farnir að vera meira á ferðinni og þá rifjast strax upp þetta munstur hjá ökumönnum. Þeir verða óþolinmóðir og blikka ljósunum og taka fram úr okkur á einbreiðum köflum,“ segir Jón Þór í samtali við Fréttablaðið.

Jón Þór vakti athygli á málinu á Facebook grúppunni Hvernig er færðin? og hefur færsla hans farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Þar bendir hann á að flestir ökumenn sýni snjómoksturmönnum skilning, en oft fái þeir skít og skömm og kallaðir nöfnum sem varla eru birtingarhæf. Hann minnir lesendur á að um sé að ræða nauðsynlega vinnu. „Við erum að reyna gera ferðalagið þitt eins öruggt og við getum.“

Umferðin í dag allt önnur en fyrir 30 árum

Jón Þór bendir á að þeir starfsmenn sem vinna við að moka snjó hafa ekki vald til að loka vegum en þeim sé þó treyst fyrir því að hafa rétta sýna á það hvenær sé tímabært að loka.

„Það sem er erfiðast við þetta starf, eftir að hafa farið til Reykjavíkur, fylgt sjúkrabílnum á spítalann, í algjörri óvissu um hvort sjúklingurinn sé lífs eða liðinn, er að koma síðan til Hveragerðis til að róa taugarnar og fá spurninguna: Ætlið þið ekki að drullast til að opna þessa helvítis heiði?“

„Við þekkjum veginn. Við þekkjum staðina þar sem snjórinn safnast svo okkur er treyst fyrir því að vera leiðbeinandi fyrir Vegagerðina,“ segir Jón Þór en hann hefur unnið við snjómokstur frá árinu 2000 en hefur verið að moka snjó á Hellisheiði í fimm ár. Snjómokstursmenn eru tilbúnir í útkall allan sólarhringinn á Hellisheiðinni. Jón Þór bendir einnig á að starfið sé einstaklega hættulegt fyrir starfsmenn á Vestfjörðum þar sem er snjóflóðahætta.

„Nú þegar törnin er að byrja hjá okkur þá varð manni hugsað til þess í gærkvöldi og ákvað ég þá að setja inn þessa færslu fyrir fólk sem er umhugað um færðina.“

Jón bendir á að umferðin sé allt önnur í dag en hún var fyrir 30 árum. Hann efast ekki um að reyndustu ökumenn, sem keyrt hafa Hellisheiðina í marga áratugi, viti hvernig eigi að keyra í blindbyljum, en þessa dagana séu ótalmargir reynslulitlir ferðamenn sem eiga til að stoppa og skapa því mikla teppu.

„Við höfum áhyggjur af því að þegar túristi stoppar á einbreiðum vegi og skapar kannski 200 til 300 bíla teppu, þá getum við ekki unnið okkar vinnu og þá þarf jafnvel að kalla á björgunarsveitarmenn,“ segir Jón.

Hjálparsveitarbílar úr Reykjavík komu á eftir mér og við hjálpuðum þeim að mynda skjól við sjúkrabílinn svo hægt færi að færa sjúklinginn yfir í sérstakan bíl slökkviliðs sem var sérstaklega útbúinn fyrir að flytja sjúklinga.
Mynd/Aðsend

Björguðu mannslífi á Hellisheiðinni

Í fyrravetur fékk Jón Þór það verkefni að hjálpa sjúkrabíl flytja sjúkling yfir Hellisheiðina í blindbyl. Aðstæður voru of hættulegar fyrir þyrluflug og neyddist sjúkrabíllinn að fara yfir Hellisheiðina þrátt fyrir lokun.

„Ég tók þessa mynd í fyrravetur. Þá fórum við tveir af stað frá Selfossi til þess að koma sjúkrabílnum í bæinn. Þá var ákveðið að taka hjálparsveitarbíl með. Þegar við erum komnir upp á háheiðina og erum að nálgast Hveradalina, þá fer skiptingin í sjúkrabílnum. Sjúkrabíllinn bilar. Við vitum aldrei hvað er í gangi í sjúkrabílnum en við vitum að við erum ekki að fara út í þessum aðstæðum,“ segir Jón Þór. Hann var þá komin langleiðina til Reykjavíkur til þess að rýma veginn og þurfti hann þá að snúa við og keyra til baka. Sem betur fer var búið að loka Hellisheiðinni og gat hann því keyrt „á móti“ umferð.

„Skafrenningurinn var orðinn svo mikill að seinni bíllinn í fylgd með sjúkrabílnum var nánast farinn í kaf.“

„Ég vissi að ég myndi þá aldrei koma mér í hættu með því að keyra þessa leið. Ég gat þá fylgt ákveðinni línu og þurfti að treysta á minnið því skyggnið var orðið það slæmt. Skafrenningurinn var orðinn svo mikill að seinni bíllinn í fylgd með sjúkrabílnum var nánast farinn í kaf. Hann festist og komst ekkert áfram. En svo fremi sem ég var á hreyfingu þá festist ég ekki. Hjálparsveitarbílar úr Reykjavík komu á eftir mér og við hjálpuðum þeim að mynda skjól við sjúkrabílinn svo hægt færi að færa sjúklinginn yfir í slökkviliðsbíl sem var sérstaklega útbúinn fyrir að flytja sjúklinga.“

Bílarnir voru allir fastir á versta stað á Hellisheiðinni og var nánast ófært og lélegt skyggni. Jón Þór segist hafa skynjað það á sjúkraflutningamönnunum og hjálparsveitarmönnunum að mannslíf væri á húfi. Álagið var gríðarlegt en með samstarfi snjómokstursmannanna, hjálparsveitar, sjúkraflutningamanna og slökkviliðs, tókst að bjarga sjúklingnum og koma honum að lokum til Reykjavíkur. En þá kom blauta tuskan í andlitið.

„Það sem er erfiðast við þetta starf, eftir að hafa farið til Reykjavíkur, fylgt sjúkrabílnum á spítalann, í algjörri óvissu um hvort sjúklingurinn sé lífs eða liðinn, er að koma síðan til Hveragerðis til að róa taugarnar og fá spurninguna: Ætlið þið ekki að drullast til að opna þessa helvítis heiði?“